Innlent

Bulsudiskó í Berufirði heppnaðist framar vonum

Bjarki Ármannsson skrifar
Svavar Pétur og Berglind við Karlsstaði.
Svavar Pétur og Berglind við Karlsstaði. Vísir/Anna Þórhildur
Það þarf ekki þúsundir manna og brekkusöng til að eiga ánægjulega stund um verslunarmannahelgina. Hjónin Svavar Pétur Eysteinsson og Berglind Häsler búa á Karlsstöðum í Berufirði og í gær stóðu þau fyrir fyrsta Bulsudiskói sögunnar.

„Við runnum mjög blint í sjóinn með þetta,“ segir Berglind. „Við ákváðum með þriggja eða fjögurra daga fyrirvara að ráðast í þetta. Við hugsuðum að það væri rosa gaman ef það kæmu fimm, aðeins meira gaman ef það koma tuttugu. Svo komu svona kannski hundrað manns.“

Berglind og Svavar Pétur eru Reykvíkingar í húð og hár en fluttu á gamalt býli í Berufirðinum í vor. Hlaðan á býlinu var vígð með diskóinu en þegar þau hjúin tóku við henni var hún troðfull af heyi sem þurfti að fjarlægja.

„Það var gaman af því við erum nýbúar hérna hvað það voru margir sem komu úr sveitinni og frá Djúpavogi. Fólk hafði orð á því að það væri gaman að þurfa ekki að fara lengra en þetta til að gera sér dagamun um verslunarmannahelgi,“ segir Berglind.

Steiktar voru grænmetispulsur, eða bulsur, og hljómsveitin Eva steig flutti tónlist. Einnig steig Svavar Pétur á stokk og tók lagið, en hann er í hljómsveitinni Prins Póló sem gaf út sína aðra plötu í vor. Berglind segir að fyrsta Bulsudiskóið hafi heppnast framar vonum og útilokar ekki að það verði haldið aftur einhvern tímann síðar.

„Ég hugsa að það verði alveg pottþétt. Það þarf líka ekki að vera um verslunarmannahelgi. Við erum viðburðaglatt fólk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×