Innlent

Verklag endurskoðað hjá Vegagerðinni

Bjarki Ármannsson skrifar
Vegamálastjóri segir ferli þegar hafið til að áminna starfsmann Vegagerðarinnar fyrir vafasama viðskiptahætti.
Vegamálastjóri segir ferli þegar hafið til að áminna starfsmann Vegagerðarinnar fyrir vafasama viðskiptahætti. Vísir/Ernir
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir ferli þegar hafið innan Vegagerðarinnar sem miðar að því að endurskoða verklag í kjölfar umfjöllunar um vafasöm viðskipti ýmissa starfsmanna við vini og skyldmenni.

„Við erum að fara yfir allt málið,“ segir Hreinn í samtali við Vísi. „Það er hópur sem er farinn að vinna í því og síðan koma menn með nýjar verklagsreglur og skýra hvernig á að standa að hlutunum þegar menn finna dæmi sem ekki hafa verið í lagi.“

Nokkur slík dæmi voru tíunduð í þætti Kastljóss á RÚV í kvöld, þar sem Hreinn var til viðtals. Þar kom meðal annars fram að útibússtjóri Vegagerðarinnar í Hafnarfirði samdi við fyrirtæki í eigin eigu um ræstingar útibúsins. Samkvæmt því sem kom fram í þættinum er áminningarferli hafið yfir starfsmanninum.

„Það eru ákveðin lög sem gilda um áminningar, það þarf að gefa mönnum andmælarétt og andmælafrest og svo framvegis,“ útskýrir Hreinn. „Það tekur einhverja daga að koma slíku á.“ Hreinn segir það ferli klárast á næstu dögum, en það endi sjaldan með brottrekstri.

Einnig var greint frá því í kvöld að ítrekað hefur verið samið við fyrirtæki fyrrverandi starfsmanns Vegagerðarinnar og bróður deildastjóra Vegagerðarinnar. Hreinn segist lítið vilja tjá sig um þessi einstöku mál við Vísi, en hann missti af þætti Kastljóss er hann var úti að moka snjó.

„Ég held að það hafi komið ágætlega fram í þessu viðtali að mér finnst þetta alvarlegt og það er strax búið að grípa til ákveðinna ráðstafanna og komið í gang ferli til að vinna úr því,“ segir Hreinn.


Tengdar fréttir

Vafasöm viðskipti Vegagerðarinnar

Dæmi eru um að starfsmenn hafi gert samninga, sem samtals nema á sjöunda hundrað milljónir króna, við ættingja, maka og jafnvel sig sjálfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×