Innlent

Grjótkrabbinn kominn alla leið til Skagafjarðar

Jakob Bjarnar skrifar
Krabbinn er á hraðri siglingu með Íslandsströndum. Hann ber mikið af hrognum. Þau skipta tugum eða hundruðum þúsunda.
Krabbinn er á hraðri siglingu með Íslandsströndum. Hann ber mikið af hrognum. Þau skipta tugum eða hundruðum þúsunda. HALLDÓR P. HALLDÓRSSON
Krakkar á leikjanámskeiði á Ísafirði lögðu út krabbagildrur og fengu í þær grjótkrabba. Frá þessu segir í Bæjarins besta og sérfræðingunum á Hafró þykja þetta athyglisverð tíðindi. Jónas Jónasson er með grjótkrabbann á sínum borðum hjá Hafrannsóknarstofnun.

„Hann hefur verið að breiðast út tiltölulega hratt með strandstraumi vestur og svo norður með landinu,“ segir Jónas. „Þetta er merkilegt með krakkana þarna fyrir vestan, en við höfum reyndar fengið fregnir af grjótkrabba í Djúpinu áður. En, þess verður að geta að bara í þessari viku fengum við myndir úr Skagafirði. Það er það allra allra nyrsta sem við höfum fengið. Þar fékkst hann í silunganet innarlega í Skagafirði. Hann er kominn á norðurlandið líka og það eru allra nýjustu fréttir,“ segir Jónas.

Grjótkrabbi fannst fyrst hér við land árið 2006, er ættaður frá Nýfundnalandi. Krabbinn er fremur stór, skjöldurinn getur orðið allt að 15 sentímetra breiður. Hann hefur verið að nema land við Íslandsstrendur á allra síðustu árum, og fer nokkuð hratt um. „Já, það eru fá stór krabbadýr sem lifa svona grunnt eins og hann. Það er pláss fyrir hann í vistkerfinu,“ segir Jónas.

Fullvaxinn grjótkrabbi en skelin getur orðið allt að 15 sentímetra breið.Óskar S. Gíslason
Menn hafa áhyggjur af því að grjótkrabbinn geti reynst skaðvaldur, þá hvað varðar botndýralíf. Jónas segir það alveg rétt, grjótkrabbinn getur orðið atkvæðamikill afræningi í botndýrakerfinu. Og kemur væntanlega til með að hafa einhverjar neikvæðar afleiðingar. „En, þess ber að geta líka að hann hefur verið nokkuð vinsæll á borðum landsmanna, svona þar sem hefur verið reynt,“ segir Jónas.

Að sögn Jónasar eru að minnsta kosti tvö sjávarútvegsfyrirtæki sem eru farin að veiða grjótkrabba og jafnvel reynt útflutning á afurðinni þó í smáum mæli sé. Krabbinn er sætur og bragðið og víða mjög eftirsóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×