Það eru nokkrir tónlistarmenn sem hafa verið tíðir gestir á verðlaununum.
Andrea Gylfadóttir, sem tilnefnd er sem söngkona ársins í kvöld, var einnig tilnefnd sem söngkona ársins þegar hátíðin fór fram í fyrsta sinn árið 1993.
Bubbi Morthens er tilnefndur sem textahöfundur ársins. Hann var einnig tilnefndur sem textahöfundur ársins árið 1993.

Í ár eru tilnefningarnar í flokknum Bjartasta vonin í popp-, rokk- og blústónlist:
Vök - Kaleo - Kött Grá Pjé Grísalappalísa - Highlands
Flokkurinn Bjartasta vonin hefur ávallt staðið undir nafni en árið 1994 var Emilíana Torrini valin bjartasta vonin og átti hún heldur betur eftir að láta á sér kveða.
Bjartasta vonin árið 1995 var hljómsveitin Botnleðja. Hún átti Lag ársins 1996, Hausverkun og var einnig valin hljómsveit ársins sama ár.

Bjartasta vonin í fyrra var Ásgeir Trausti. Hann hefur unnið marga sigra að undanförnu og hefur plata hans, In the Silence, fengið prýðisdóma í erlendum miðlum. Hann var í fyrsta sæti á Billboard Hot Overseas-listanum í Japan með smáskífulagið King and Cross og vann einnig Ebba-verðlaunin á síðasta ári.
Það má með sanni segja að björtustu vonirnar hafi orðið enn bjartari í kjölfar viðurkenningarinnar.