Innlent

Vilja heim til Íslands en fastir í Noregi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Guðbjört Guðjónsdóttir, doktorsnemi í mannfræði.
Guðbjört Guðjónsdóttir, doktorsnemi í mannfræði.
Íslendingar sem vilja flytja heim frá Noregi segja atvinnutækifæri skorta hér á landi og þeir séu því fastir í Noregi. Flestum Íslendingum sem fluttu þangað eftir hrun líður þó vel í Noregi og hafa aðlagst ágætlega.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Guðbjartar Guðjónsdóttur doktorsnema í mannfræði. Hún hitti Íslendinga í Noregi og tók viðtöl við þá árið 2012 og 2013. Hún skoðaði sérstaklega ástæður þess að þeir ákváðu flytja þangað.

„Það var mjög oft náttúrulega að hrunið kom einhvern veginn inn í, fjárhagserfiðleikar eða atvinnuleysi en ekki hjá öllum og það var oft einhverjir aðrir þættir sem að spiluðu líka inn í. Þannig að fólk var líka búið að ákveða kannski að fara fyrir en svo var bara Noregur í boði eftir hrun af því það var ekki vinnu að fá annars staðar. Svo var líka fólk sem að upplifði bara íslenskt samfélag sem svo neikvætt. Það var svo mikil reiði. Það var svo ömurleg umræða,“ segir Guðbjört. Þá hafi sumir jafnvel haft það fínt fjárhagslega á Íslandi þegar að þeir ákváðu að fara en upplifað það sem tækifæri að fara til Noregs og samfélagið þar vera betra.

Guðbjört hélt erindi um rannsókn sína á málþingi Mannfræðifélags Íslands sem haldið var í Háskóla Íslands í gær. Frá hruni hefur fjöldi Íslendinga í Noregi ríflega tvöfaldast. Í ársbyrjun 2008 voru þeir rúmlega 3.700 en voru í byrjun árs 2014 orðnir rúmlega 8.700.

Guðbjört segir flestum þeirra sem farið hafa til Noregs líða vel þar. „Það náttúrulega fer svolítið eftir hvort það hefur verið að læra kannski á Norðurlöndunum eða er með góða sænsku, norsku eða dönsku fyrir hversu auðvelt það er til dæmis að ná norskunni.“

Guðbjört segir suma þó vilja koma aftur til Íslands en þeir telji sig í raun vera fasta úti og ekki geta það. „Þá langar heim til fjölskyldu og vina en sumir bara geta ekki hugsað sér að fara í íslenskt samfélag og svo er náttúrulega ekki atvinna og tækifæri fyrir hendi og miklu lægri tekjur,“ segir Guðbjört.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×