Innlent

Nær stanslaus taprekstur hjá Reykjanesbæ

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Taka þarf til hendinni í rekstri Reykjanesbæjar en skuldir hafa safnast upp á síðustu árum.
Taka þarf til hendinni í rekstri Reykjanesbæjar en skuldir hafa safnast upp á síðustu árum. Vísir / Stefán
Reykjanesbær hefur verið rekinn með halla stanslaust í rúman áratug, með einni undantekningu. Samtals hefur tapið numið fjórtán milljörðum króna á árunum 2002-2013 en á sama tíma hafa skuldir sveitarfélagsins stóraukist. Þetta kemur fram í skýrslu sem KMPG vann fyrir sveitarfélagið og kynnt var íbúum bæjarins í gær.

Mestur halli var á rekstrinum á árunum 2008 og 2009 þegar tapreksturinn nam á bilinu 4-4,7 milljörðum króna. Árið eftir, eða 2010, er hinsvegar eina rekstrarár sveitarfélagsins þar sem rekstrarniðurstaðan hefur verið jákvæð en þá skilaði Reykjanesbær 560 milljóna króna afgangi.

Hér sést þróun skulda annarsvegar og skulda sem hlutfall af tekjum hinsvegar. Myndin sýnir alvarlega stöðu í rekstri bæjarins.
Tölurnar sem miðað er við er rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins fyrir óreglulega liði árin 2002 til 2013, fyrir bæði A- og B-hluta, á verðlagi hvers árs. Í sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 er kveðið á um að reka eigi A- og B-hluta samtals með jöfnuði fyrir óreglulega liði. Það þýðir að ef lögin hefðu gilt allt tímabilið hefði vantað fjórtán milljarða til að reksturinn væri í samræmi við lög.

Skuldir Reykjanesbæjar námu á síðasta ári rúmum fjörtíu milljörðum króna sem er rúmlega fjórfalt meira en skuldirnar voru árið 2002. Skuldirnar hafa hækkað mikið á tímabilinu en það hafa tekjur sveitarfélagsins einnig gert. Staðan núna er sú að skuldirnar nema 271 prósent af tekjum. Það er betri staða en síðustu árin þar á undan en verri en hún var í upphafi tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×