Örnefnanefnd Alþjóðasambands stjarnfræðinga samþykkti í gær tillögu vísindamanna sem starfa við MESSENGER leiðangur NASA, að nefna gíg á Merkúríusi, Laxness, eftir íslenska rithöfundinum Halldóri Kiljan Laxness. Þetta kemur fram á Stjörnufræðivefnum.
Þar segir að gígurinn, sem er tæplega 26 kílómetrar að þvermáli, er skammt frá norðurpól Merkúríusar. Á sama tíma var átta öðrum gígum gefin formleg nöfn.
Gígar á Merkúríusi, innstu reikistjörnu sólkerfisins, eru nefndir eftir heimsþekktum látnum listamönnum, tónlistarmönnum og rithöfundum eða öðrum sem hafa sett mark sitt á menningu og listir mannkynsins.
Á Merkúríusi eru gígar til að mynda nefndir eftir Beethoven, Mozart, Hemingway, Tolkien og Picasso, svo fáein dæmi séu tekin.
