Enski boltinn

Andre Marriner dæmir bikarúrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Marriner spjaldar hér Kolo Toure fyrr í vetur.
Andre Marriner spjaldar hér Kolo Toure fyrr í vetur. Mynd/AFP
Enska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að Andre Marriner fá það verkefni að dæma enska bikarúrslitaleikinn í ár en Manchester City og Wigan Athletic mætast á Wembley í næsta mánuði.

Þetta er fyrsti bikarúrslitaleikur Marriner en þriðji leikurinn sem hann dæmir á Wembley. Marriner dæmdi líka leik Manchester United og Chelsea um Samfélagsskjöldinn 2010 og leik Cardiff City og Blackpool í umspili ensku b-deildarinnar sama ár.

Marriner var einnig fjórði dómari á bikarúrslitaleik Manchester City og Stoke City fyrir tveimur árum en City vann þann leik 1-0.

Andre Marriner er 42 ára gamall en hann hefur dæmt í ensku úrvalsdeildinni frá 2005 og er búinn að vera FIFA-dómari frá árinu 2009.

Marriner hefur dæmt þrjá leiki hjá Manchester City og tvo leiki hjá Wigan Athletic í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. City hefur náð í 7 af 9 stigum mögulegum í þessum leikjum en Wigan aðeins 1 af 6.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×