Rokkarinn Dave Grohl hefur lofað trommuleik Meg White með rokkdúettnum sáluga The White Stripes í hástert.
Einfaldur trommustíll White hefur oft verið gagnrýndur. Grohl er ekki á sama máli og segir White í hópi með bestu trommurum sögunnar eins og Keith Moon og John Bonham. Í viðtali við Rolling Stone segir hann nútímatrommuleik skorta persónuleika og hann njóti þess að hlusta á trommara sem séu kannski ekki tæknilega framúrskarandi en hafi samt búið til góða tónlist.
„Það er gaman að hlusta á trommara eins og Meg White, einn af mínum uppáhaldstrommurum,“ sagði fyrrverandi trommari Nirvana.

