Innlent

Kominn heim eftir flugslysið

Jóhannes Stefánsson skrifar
Flugmaðurinn sem komst lífs af hefur verið útskrifaður af FSA.
Flugmaðurinn sem komst lífs af hefur verið útskrifaður af FSA. Fréttablaðið/Axel
Flugmaðurinn sem lifði af flugslysið þar sem sjúkraflugvél Mýflugs fórst á braut akstursíþróttafélags Akureyrar fimmta ágúst síðastliðinn hefur nú verið útskrifaður af Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

Samkvæmt vakthafandi lækni á gjörgæsludeild FSA var maðurinn útskrifaður á föstudaginn var. „Hann er kominn heim til sín,“ segir hann.

Læknirinn segir bata mannsins hafa verið skjótan. „Miðað við allt og allt gekk þetta eins og við var að búast,“ segir hann.

Flugslysið er nú til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Skömmu fyrir slysið höfðu flugmennirnir óskað eftir því að koma ekki inn til lendingar og fljúga hring áður en komið væri inn til lendingar að nýju.

Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, vildi ekki tjá sig um hvort ástæða þess að hætt hafi verið við lendingu væri sérstaklega til rannsóknar.

„Slysið og aðdragandi þess er allt til rannsóknar,“ segir Þorkell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×