Innlent

Segir Fyrirtækjaskrá hafa verið blekkta

Stígur Helgason skrifar
Forstöðumaður Fyrirtækjaskrár segir Lýð Guðmundsson og félaga hafa blekkt stofnunina. Hér er Lýður ásamt verjanda sínum, Gesti Jónssyni.
Forstöðumaður Fyrirtækjaskrár segir Lýð Guðmundsson og félaga hafa blekkt stofnunina. Hér er Lýður ásamt verjanda sínum, Gesti Jónssyni. Fréttablaðið/Stefán
„Ég lít þannig á að skráin hafi verið vísvitandi blekkt. Það er ekki hægt að líta á þessa tilkynningu með öðrum hætti,“ sagði Skúli Jónsson, forstöðumaður Fyrirtækjaskrár, fyrir dómi í gærmorgun um fimmtíu milljarða hlutafjárhækkun Existu í desember 2008 og tilkynningu sem lögmaðurinn Bjarnfreður Ólafsson sendi Fyrirtækjaskrá um hana.

Skúli var fyrstur manna í vitnastúku í morgun á öðrum degi aðalmeðferðar í máli Sérstaks saksóknara gegn Lýði Guðmundssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Existu, og Bjarnfreði fyrir brot á hlutafélagalögum. Málið snýst um að einungis hafi verið greiddur einn milljarður fyrir fimmtíu milljarða hlutafjárhækkunina, sem sé andstætt 16. grein hlutafélagalaga um að ekki megi greiða minna en nafnverð fyrir hluti.

Skúli sagðist fyrst hafa áttað sig á því að ekki væri allt með felldu snemmsumars 2009 þegar hann fékk símtal frá blaðamanni. Skúli hafi þá skoðað tilkynninguna sjálfur í fyrsta sinn. „Þá sé ég að þetta er fjarri því að vera í lagi,“ sagði Skúli. Honum hafi brugðið mjög að sjá að þetta hefði verið samþykkt á sínum tíma, enda hefði ekki verið samræmi á milli tilkynningarinnar og efnis skýrslunnar frá Deloitte, sem fylgdi henni.

En hvernig stendur þá á því að Fyrirtækjaskrá samþykkti hlutafjáraukninguna til að byrja með, fyrst svona augljóst var að hún stæðist ekki lög? Skúli skýrði það með því að þegar tilkynningin barst hafi einfaldlega enginn sérfræðingur verið á vakt hjá skránni. Því hafi reyndur starfsmaður, sem ekki var sérfræðingur, farið yfir málið undir mikilli tímapressu.

„Starfsmaðurinn hafði greinilega ekki þá faglegu þekkingu til að átta sig á því að það var ekki samræmi á milli tilkynningarinnar og efnis skýrslunnar,“ sagði Skúli. Vegna þessa máls hefði vinnulagi stofnunarinnar verið breytt á þann hátt að nú læsu alltaf minnst tveir sérfræðingar yfir tilkynningar og skýrslur af þessu tagi. Saksóknari og verjendur munu flytja málið í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.