Innlent

Tugir árekstra á nokkrum klukkutímum: Lenti í tveimur árekstrum á korteri

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Haukur Ingi Hjaltalín Komst loks í vinnuna í Turninum í Kópavogi eftir tvo árekstra á leið sinni úr Hafnarfirði.
Haukur Ingi Hjaltalín Komst loks í vinnuna í Turninum í Kópavogi eftir tvo árekstra á leið sinni úr Hafnarfirði. Fréttablaðið/Valli
„Þetta var aðallega skemmtileg lífsreynsla,“ segir Haukur Ingi Hjaltalín, sem lenti í tveimur árekstrum á leið til vinnu í gær – í sitt hvorum bílnum.

Haukur Ingi býr í Hafnarfirði og vinnur í Kópavogi. Um níuleytið í gærmorgun ók hann inn í blindbyl á Reykjanesbraut við Vífilsstaðaveg.

„Það næsta sem ég sá var bíll þvert á veginum,“ segir Haukur. „Ég reyndi að komast framhjá og fór út í vegrið en klessti samt á hann. Ég var fjórði bíllinn í þeim árekstri. Það stóð maður á milli bílanna og þótt ég væri ekki nema á tuttugu kílómetra hraða þá sleikti bíllinn á honum rassinn svo honum rétt tókst að stökkva frá.“

Haukur segir manninn sem slapp svo naumlega hafa sagst vera með þriggja daga gamalt barn í bílnum svo greitt hafi verið fyrst úr hans málum. Sjálfur hafi hann sest inn í bíl frá Aðstoð & öryggi þegar fulltrúi fyrirtækisins mætti á staðinn.

„Þá kom pallbíll og keyrði á þann bíl og svo þriðji bílinn sem klessti á pallbílinn,“ segir Haukur, sem kveðst í fyrstu hafa verið mjög pirraður yfir atburðarásinni enda óljóst hver væri í rétti. Upplifunin hafi þó verið merkileg. „Það er óneitanlega dálítið sérstakt að lenda í árekstri með fimmtán mínútna millibili á sitt hvorum bílnum.“

Sindri Ásbjörnsson hjá Aðstoð & öryggi segir að um klukkan hálfþrjú í gær hafi starfsmenn fyrirtækisins verið búnir að sinna um þrjátíu árekstrum. „Þetta var stórkostlega erfiður dagur,“ sagði Sindri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×