Innlent

RÚV ritstýrir flokkakynningum

Björgvin G. Sigurðsson formaður allsherjarnefndar segir samstöðu þar um að framboð fái ekki óheftan aðgang að RÚV. Fréttablaðið/gva
Björgvin G. Sigurðsson formaður allsherjarnefndar segir samstöðu þar um að framboð fái ekki óheftan aðgang að RÚV. Fréttablaðið/gva
„Við treystum RÚV til að ritstýra og framleiða efnið og gera öllum jöfn skil," segir Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjar- og menningarmálanefndar Alþingis, um tillögu nefndarinnar um tilhögun kynninga í sjónvarpi á framboðum fyrir kosningar.

Þverpólitísk nefnd um aðgang stjórnmálahreyfinga að fjölmiðlum hafði hins vegar lagt til að öll framboð gætu sjálf framleitt efni á eigin ábyrgð og fengið ókeypis útsendingartíma í sjónvarpi RÚV.

„Þegar þessi tillaga kom fram olli hún nokkru uppnámi hjá RÚV," segir Björgvin sem kveður Pál Magnússon útvarpsstjóra og Finn Beck, formann aðgangsnefndarinnar, því hafa verið kallaða til fundar við allsherjarnefnd á mánudag. Góð samstaða hafi síðan orðið um niðurstöðuna.

„Það er lagt til að RÚV skuli fjalla um fylkingar, framboð og flokka í þingkosningum og þjóðaratkvæðisgreiðslum og gera þeirra helstu stefnumálum skil. En samkvæmt niðurstöðunni hefur RÚV ritstjórnarlegt vald yfir þessu efni. Það er ekki verið að afhenda framboðunum einhvern óheftan aðgang að RÚV og þeirra tækniliði og útsendingartíma eins og kannski mátti skilja af viðbrögðunum," segir Björgvin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×