Innlent

FBI-piltur fær nefndaráheyrn

Stígur Helgason skrifar
Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson
Pilturinn sem fulltrúar FBI ræddu við hér á landi sumarið 2011 um starfsemi Wikileaks mun koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis á fimmtudag. Þetta staðfestir nefndarformaðurinn Björgvin G. Sigurðsson.

„Hann sendi mér erindi þar sem hann spurðist fyrir um það hvort það stæði honum til boða að koma fyrir nefndina ef hann óskaði eftir því. Ég bar það undir mína félaga í meirihlutanum og okkur fannst hann í raun eiga rétt á því, af því að hann er ákveðinn miðdepill í þessari umfjöllun í nefndinni og við fjölluðum mikið um þetta," segir Björgvin.

Nefndin fékk ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra, innanríkisráðherra og fulltrúa Wikileaks á fund sinn í síðustu viku til að fara yfir málið, sem snýst um það þegar hópur FBI-fulltrúa var hér á landi í ágúst 2011 og ræddi við piltinn í fimm daga án aðkomu íslenskra yfirvalda.

„Ef honum finnst hann þurfa að fá sama aðgengi og yfirvöld að nefndinni til að skýra frá sínum þætti finnst mér ágætt að hann fái það," segir Björgvin.

Hann kveðst líta svo á að umfjöllun nefndarinnar um málið sé lokið að öðru leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×