Innlent

Stærsta dópmálið á Íslandi í langan tíma

Stígur Helgason skrifar
Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn í Reykjavík Fíkniefni Kókaín
Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn í Reykjavík Fíkniefni Kókaín

Fimm manns sitja nú í gæsluvarðhaldi grunaðir um tengsl við risavaxið amfetamínsmyglmál. Málið er það stærsta sem hefur komið upp á Íslandi um langa hríð og aðgerðir vegna þess standa enn.

Fram kom í tilkynningu frá lögreglu í gær að efnin hefðu komið til landsins í nokkrum póstsendingum og að lagt hefði verið hald á þau í síðustu viku. Tollayfirvöld fundu efnin með aðstoð fíkniefnaleitarhunda. Þau munu hafa komið hingað frá Danmörku.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er talið að um amfetamín sé að ræða, bæði í duft- og vökvaformi, og að magnið hlaupi á tugum kílóa. Endanleg greining á efninu og magni þess liggur hins vegar ekki fyrir.

Mennirnir fimm sem sitja í gæsluvarðhaldi eru á þrítugs-, fertugs- og fimmtugsaldri og eru bæði íslenskir og litháískir. Tveir þeirra voru á föstudaginn fyrir rúmri viku úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 8. febrúar og hinir þrír voru handteknir eftir helgina og úrskurðaðir í varðhald til 7. febrúar. Flestir þeirra hafa komið við sögu lögreglu áður í mismiklum mæli.

Aðgerðum vegna málsins er hins vegar ekki lokið. Fréttablaðið hefur upplýsingar um að síðast í gær hafi verið gerð húsleit á höfuðborgarsvæðinu og hald lagt á tvær tölvur í eigu Íslendings sem hefur um þriggja ára skeið sætt rannsókn vegna annars umfangsmikils sakamáls. Hann var handtekinn og yfirheyrður síðdegis en sleppt að því loknu.

Þá herma heimildir Fréttablaðsins að líklegt sé að enn fleiri verði handteknir vegna málsins á næstu dögum.

Við rannsókn málsins hefur lögreglan notið aðstoðar kollega sinna í Danmörku. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.