Innlent

Of feitum börnum fækkar

Mynd/Getty
Hlutfall of þungra eða of feitra íslenskra barna hefur ýmist staðið í stað eða lækkað síðustu níu til tíu ár. Aftur á móti jókst hlutfall barna yfir kjörþyngd áratugina á undan.

Þetta eru niðurstöður tveggja nýrra rannsókna er varða þyngd barna hér á landi. Önnur snýr að líkamsþyngdarstuðli íslenskra barna sem eru yfir kjörþyngd og hvernig skólahjúkrunarfræðingar sinna þeim. Hin snýr að tengslum mataræðis á fyrsta aldursári við líkamsþyngd barnanna þegar þau verða sex ára.

Samkvæmt þeirri fyrrnefndu reyndust um 22,5 prósent barna af báðum kynjum vera yfir kjörþyngd árið 2008. Fjöldinn hafði haldist stöðugur undanfarin níu ár þar á undan, þó tíðni of feitra barna hafi sveiflast nokkuð, er fram kemur í inngangi að kynningu rannsóknarinnar. Þá höfðu rúmlega 60 prósent skólahjúkrunarfræðinga beitt sér vegna ofþyngdar barna, annaðhvort með viðtölum við börnin sjálf eða samtali við foreldra þeirra. Gagna var aflað úr rafrænum gagnagrunni heilsuverndar skólabarna á höfuðborgarsvæðinu skólaárin 2003 og 2004 til 2011 og 2012. Einnig var sendur út spurningalisti til skólahjúkrunarfræðinga.

Í hinni rannsókninni er sýnt fram á hugsanleg tengsl á milli prótínneyslu ungabarna og þyngdar þeirra á sjötta aldursári. Eins og áður sagði hefur of þungum sex ára börnum fækkað síðustu tíu ár, en samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar bendir það til þess að lægri prótínneysla, vegna minni neyslu á venjulegri kúamjólk, gæti að hluta til skýrt þann mun.

Niðurstöður rannsóknanna tveggja, sem og fjölda annarra, verða kynntar á stórri ráðstefnu í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands í dag og á morgun.- sv
Fleiri fréttir

Sjá meira


×