Hljómsveitirnar Robert the Roommate, Ylja og Ultra Mega Technobandið Stefán koma fram á styrktartónleikum fyrir Geðhjálp sem verða haldnir á Kexi hosteli á föstudaginn.
Skipuleggjendur eru Bergþóra Sveinsdóttir, Marsibil Björk Eiríksdóttir og Jóhann Páll Jónsson, nemar við Háskóla Íslands í tómstunda- og félagsmálafræði. Þau eru í faginu viðburðastjórnun og er eitt verkefnið að halda einhvers konar viðburð.
Geðhjálp völdu þau vegna þess að þar finnst þeim vera þarft og gott starf í gangi sem kemur öllum við, á beinan eða óbeinan hátt. Samtökin eru til húsa við Túngötu. „Það er búin að vera mikil umræða í gangi í samfélaginu um þetta málefni og það vantar fleiri úrræði fyrir fólk með geðraskanir,“ segir Bergþóra.
Henni líst vel á tónleikana á föstudaginn. Systir Bergþóru, Rósa Guðrún Sveinsdóttir, er einmitt söngkona í Robert the Roommate. „Ég held að þetta verði ótrúlega skemmtilegt og ég vona að sem flestir mæti. Þetta er mjög mikilvægt málefni.“
Miðaverð á tónleikana er 1.500 krónur og hefjast þeir stundvíslega kl. 20.30.
