Lífið

"Þetta er dimmur dagur“

Ellý Ármanns skrifar

Samskiptasíðan Facebook hefur bókstaflega logað af sorg hér á landi í dag og í gærkvöldi en strax eftir að fréttir um fráfall Hermanns Gunnarssonar birtust á netmiðlum lét þjóðin ekki á sér standa og kvaddi góðan vin. Hér má lesa kveðjur sem nokkrir af félögum og samstarfsmönnum Hemma skrifuðu á Facebooksíðuna sína þar sem þeir kveðja þennan ástsæla kærleiksríka mann sem snerti alla sem urðu á vegi hans.

Hemmi, Svansí og Ívar á Bylgjunni.

„Manni bregður óneitanlega þegar góður vinur og samstarfsfélagi fellur frá! Ekki hefði mig grunað að kveðjustund okkar á Bylgjunni fyrir nokkrum vikum hefði verið okkar síðasta stund saman. Hvíldu í friði gleðigjafi Hemmi Gunn." Ívar Guðmundsson útvarpsmaður

„Manni bregður óneitanlega þegar góður vinur og samstarfsfélagi fellur frá! Ekki hefði mig grunað að kveðjustund okkar á Bylgjunni fyrir nokkrum vikum hefði verið okkar síðasta stund saman. Hvíldu í friði gleðigjafi Hemmi Gunn." - Ívar Guðmundsson útvarpsmaður „Sorgarfréttir bárust okkur vinunum í dag. Hermann Gunnarsson vinur okkar allra lést í dag. Ég sakna þessa góða drengs sem alltaf var hress og glaður í bragði. Hann gaf okkur gleði og hlátur og vinskap. Við kveikjum á kertum í söknuði og syrgjum þennan góða dreng. Hann mun lifa í minningum okkar um alla æfi. Hvíl í friði vinur......." - Björgvin Halldórsson tónlistarmaður

„Það var heiður að fá að kynnast Hemma. Hann var einstaklega fyndinn og skemmtilegur. Brautryðjandi á svo mörgum sviðum og alltaf léttur. Hans verður sárt saknað." - Logi Bergmann sjónvarpsmaður 

„Mér er orðavant. Þegar ég sá færslunar þrjár frá Hemma vini mínum trillast yfir skjáinn í nótt þá brosti ég og hugsaði hvað það væri einstakt að vera alltaf svona jákvæður og mikill gleðigjafi. Hvað það væru fáir sem eru svona. Þetta hljómar ótrúlega en ég fór allt í einu að hugsa um öll fallegu jólakortin sem gleðja alltaf hjarta mitt, fallegu skriftina hans, fallegu, uppbyggilegu og hvetjandi samtölin okkar gegnum árin, kærleikskveðjurnar frá mínum einlæga vini, eins og hann sagði alltaf og faðmlagið hans. Ég hugsaði svo sterkt til hans þegar ég setti like á færsluna að ég skrifaði ekkert. Blessuð sé minning þín elsku Hemmi minn. Það verður vel tekið á móti þér elskulegastur allra.“ - Ragnheiður Elín Clausen fyrrum sjónvarpsþula

„26 ár síðan ég varð sjónvarpsstjarna, sama dag og ég hitti Hemma Gunn í fyrsta sinn; hann sat þarna baksviðs frekar stressaður og reykti mikið – þátturinn sem við vorum báðir í fékk svo mikið áhorf að sama haust var Hemmi kominn með eigin þátt og brátt orðinn sameiningartákn þjóðarinnar. Fimm árum áður hafði hann verið ein af hetjum bernsku minnar, þá skemmti maður sér við að segja hlæjandi: verið hress, ekkert stress. Bless.“ - Ármann Jakobsson lektor

„Þvílíkur missir fyrir þjóðina alla. Þetta er dimmur dagur.“ - Tobba Marínós rithöfundur „HVÍL Í FRIÐI ELSKU HEMMI MINN," - Svala Björgvinsdóttir tónlistarkona

Hemmi ásamt Birtu Björnsdóttur.

„Hemmi Gunn var umfram allt góður náungi alla leið í gegn. Það var sannur heiður að fá að kynnast honum. Þjóðargersemi, sem alltaf smitaði jákvæðni og gleði, sama hvað gekk á í þjóðfélaginu.“ - Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður

„Elsku Hemmi Gunn. Ég hitti þig fyrst þegar Söngævintýrið hans Gylfa Ægis var tekið upp. Engir stjörnustælar í þér. Slíkur hroki var ekki til í þér. Takk fyrir að hafa tekið mér sem fullkomnum jafningja, þótt ég hafi bara verið 10 ára. Allir voru jafn mikilvægir fyrir þér. Við héldum áfram að vera jafningjar gegnum árin, sama hvað á dundi. Alltaf var manni tekið með hlýju faðmlagi. Kærleikurinn og hlýjan. Þetta var stærsta gjöfin sem þú gafst þjóðinni, og við hin ættum að reyna okkar besta til að gefa hana áfram. Bið að heilsa öllum sem þú hittir þarna hinum megin. Guð blessi minningu þína, elsku Hemmi. Þinn, Palli.“ - Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður

„Þegar ég var um það vil tvítugur þá lenti ég í partí í Vogahverfinu í Reykjavík. Þar var aðalliðið í bænum – allar píurnar og töffarnir. Hemmi Gunn mætti í partíið – þá landsþekktur úr boltanum, bæði fót og hand. Vægast sagt...Hemmi var í stuði – miklu stuði og brandararnir og djókið flugu um partíið. Liðið var í einum hláturkrampa og veltist um – þvílíkt og annað eins. Þetta var ekki hægt. Ég hef aldrei hlegið jafn mikið á ævinni. Mörgum árum seinna þá eru menn orðnir sjónvarpsmenn. Sjónvarpsfólkið var oft í hégóma sínum að reyna að meta og mæla vinsældirnar á skjánum. Svona eins og smákrakkar. En það var sama hvað allir reyndu og vildu....Hemmi var alltaf vinsælastur – langvinsælastur! Það áttu engir aðrir séns í sjónvarpsvinsældir Hemma Gunn. Hugtakið “skemmtikraftur” var eiginlega búið til um hann. Farvel Hemmi Gunn og nú eru allir í stuði hjá guði.“ - Sigurður Lárus Hall matreiðslumeistari

Helga Arnardóttir fréttakona og Hemmi.

„Enn einn af drengjunum hans Sr. Friðriks fer nú með víðu vænghafi Valsins að himinskautum - í nýja vist, nýja vídd. Sá sem svo lengi gladdi okkur á bylgjulengdinni 98.9 verður að líkindum áfram með okkur, á tíðnisviði sem við öll munum læra að nema og meðtaka - er yfir lýkur. VIð þessi vatnaskil þökkum við gleðina, örlætið og góðu straumana sæm ævinlega hafa verið aðalsmerki Hermanns okkar Gunnarssonar. Gjöldum og líkt með líku. Far vel bróðir.“ - Jakob Frímann Magnússon stuðmaður

„Veröldin varð grárri í dag. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að kynnast þér í gegnum starfið. Einstakur maður hvort sem var sem samstarfsfélagi eða bara vinur. Hvíl í friði vinur minn. Verið hress, ekkert stress, Bess bless.“ - Sigvaldi "Svali" Kaldalíns útvarpsmaður

„Elsku Hemmi. Vinur og samstarfsmaður. Fyrir rúmum 13 árum hringdi ég í hann vegna ástkærs vinar sem vildi fá hjálp til að hætta að drekka. Hemmi var ekki lengi að boða hann á sinn fund, talaði við hann í klukkutíma og opnaði augu hans. Viku síðar hófst nýtt líf hjá vini mínum sem varir enn. Guð blessi minningu þína elsku Hemmi minn.“ - Anna Kristine Magnúsdóttir útvarpskona

„Takk fyrir hlýjuna, gleðina og hláturinn elsku Hemmi. Taktu einn dans fyrir mig.“ - Heiða Kristín Helgadóttir stjórnarformaður „Einu sinni spilaði ég leik með Hemma. Með liði 365 gegn Nördunum. Hann var yfirburðamaður i þeim leik. Bestur og mestur. Bæði innan vallar sem utan. Þvílíkur maður.“ - Benedikt Bóas Hinriksson blaðamaður

„Hemmi Gunn gaf mér góð ráð á erfiðri stund. Hann leitaði eftir minni aðstoð nokkrum sinnum. Það voru innileg samtöl sem mér þykir vænt um. Ég votta fjölskyldu Hemma og vinum innilegrar samúðar.“ - Jóhannes Kr. Kristjánsson fjölmiðlamaður

„Sit hérna í Malmö í losti. Virkilega illt í hjartanu. Rétt eins og nákominn ættingi hafi fallið frá. Ég finn ennþá fyrir faðmlagi Hemma frá því fyrir nokkrum dögum þegar við hittumst í Efstaleitinu. Það fylgdi alltaf faðmlag. Forréttindi að hafa kynnst honum. Verið hress, ekkert stress, bless.“ - Hans Steinar Bjarnason íþróttafréttamaður






Fleiri fréttir

Sjá meira


×