Innlent

Fylgistapið vonbrigði - verðum að sækja fram

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að fylgistap flokksins í síðustu skoðanakönnunum séu mikil vonbrigði. Eina í stöðunni núna sé að sækja fram og trúa á boðskapinn.

Bjarni var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Sigurjón spurði hann út í niðurstöður úr síðustu könnunum. „Það eru sögulegar hreyfingar á fylginu um þessar mundir, meira en ég hef séð í langan tíma. Að sjálfsögðu eru þetta mikil vonbrigði," sagði Bjarni.

Sigurjón spurði Bjarna þá hvernig flokkur ætlaði að bregðast við. „Við verðum að sækja fram, halda áfram og trúa á boðskapinn. Við erum flokkur sem stendur við grunngildin. Við höfum nýlega slípað til stefnuna og ég er ánægður með hana. Ég trúi á hana fram í rauðan dauðann. Það er eina svarið í þessari stöðu þegar við erum að dala svona í fylgiskönnunum. Við verðum að skila betur þessum helstu áherslum okkar; að lækka skatta, efla atvinnulífið og koma til móts við skuldavanda heimilanna."

Þá sagði Bjarni að taka ætti húsnæðismarkaðinn til endurskoðunar og benti á dönsku leiðina sem ASÍ kynnti nýlega, þar sem vextir af húsnæðislánum verði óverðtryggðir.

Bjarni sagðist einnig ekki vilja banna verðtrygginguna. „Mér finnst röng hugsun í því að banna verðtryggingu, við hljótum að treysta fólki til að taka upplýstar ákvarðanir," sagði Bjarni meðal annars.

Hlusta má á viðtalið við Bjarna hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×