„Þetta var gaman og mér þótti nú bara verulega vænt um þetta, Indriði var nú kennarinn minn á sínum tíma og ég sakna hans mjög,“ segir Katrín María Káradóttir, klæðskeri og fatahönnuður, sem að tók við Indriðaverðlaununum á uppskeruhátíð Fatahönnunarfélags Íslands um síðastliðna helgi.

„Ég lít á þetta sem viðurkenningu á mínum störfum í gegnum tíðina og ekki síst núna undanfarin ár, eða þann tíma sem ég hef hvað mest starfað fyrir Ellu, þannig að eitthvað hljótum við að vera að gera rétt þar,“ segir Katrín María glöð í bragði.
Katrín María hefur verið yfirhönnuður Ellu frá upphafi en einnig starfað erlendis fyrir John Galliano, Lutz, Thomas Engelhart, Bali Barette og Martine Sitbon. „Ég sé fyrir mér að þetta verði stærri viðburður með tímanum og vona að þetta muni auka veg fatahönnunarinnar almennt og sýni mikilvægi þess að þetta fag sé tekið alvarlega.“