Innlent

Íslensk ferðaskrifstofa býður upp á ferð til Norður- Kóreu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Íslensk ferðaskrifstofa hyggst bjóða upp á hópferð til Norður Kóreu næstu páska. Norður- Kórea er einangraðasta land í heimi og er lokað ferðamönnum að mestu.

Aðeins 1500 ferðamönnum er hleypt inn í landið á ári en ferðaskrifstofan Trans Atlantic stefnir á að fara þangað með tuttugu og fimm manna hóp frá Íslandi 10. til 23. apríl 2014.

Það er sagnfræðingurinn Árni Hermannsson sem skipuleggur ferðina. Hann fór sjálfur til landsins árið 2010 ásamt nokkrum kennurum í Verzló. Í þeirri ferð myndaði hann góð tengsl við litla ferðaskrifstofu í Kína sem svo bauð honum að koma aftur með hóp. Skrifstofan er sú eina í heiminum sem hefur leyfi til að senda ferðamenn til Norður- Kóreu.

Norður-Kórea er mesta einræðisríki heims og er því stjórnað af einræðisherranum Kim Jong Un.  Þekking umheimsins á landinu er afar takmörkuð en til að mynda er engum fréttamönnum hleypt inn. Þá er öllum ferðamönnum sem þangað koma gert að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þeir muni ekki tala illa um landið að ferðalagi loknu.

Að sögn skipuleggjenda hjá Trans Atlantic hefur fjöldi fólks nú þegar sýnt ferðinni áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×