Innlent

Frumvarp um höfuðstólsleiðréttingu í bígerð

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti munnlega skýrslu um um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna á Alþingi í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti munnlega skýrslu um um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna á Alþingi í dag. Mynd/GVA
Hafin er vinna að gerð frumvarps um höfuðstólsleiðréttingar í forsætisráðuneytinu. Þetta kom fram í ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Alþingi í dag. Sigmundur flutti munnlega skýrslu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

Sigmundur segir að sérfæðingahópur sem eigi að útfæra mismundandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána skili af sér niðurstöðum sínum fyrir lok þessa mánaðar.

„Hópurinn hefur fengið til sín gesti úr ýmsum áttum m.a. frá lánveitendum, Seðlabanka, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna og Umboðsmanni skuldara. Skipaðir hafa verið fjórir undirhópar sérfræðinganefndarinnar. Einn hópurinn undirbýr tillögur um framkvæmd leiðréttingarinnar, annar um stofnun leiðréttingarsjóðs, þriðji um notkun skattkerfisins til að ná fram markmiðunum og sá fjórði um hvata til að skuldbreyta lánum í óverðtryggð,“ sagði Sigmundur og bætti við.

„Einnig hafa utanaðkomandi sérfræðingar verið fengnir til að vinna afmarkaða hluta t.d. mat á efnahagslegum áhrifum. Þá er að hefjast vinna við gerð frumvarps um höfuðstólsleiðréttingar.“

Sérfræðingarhópurinn var skipaður í ágúst undir formennsku Sigurðar Hannessonar. Hópurinn byggir vinnu sína á þeim forsendum að leiðrétta þann forsendurbrest sem heimili urðu fyrir vegna verðbólguskots áranna 2007-2010. Meta á fýsileika þess að ná fram lækkun höfuðstóls með skattaafslætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×