Bíó og sjónvarp

Ný Stjörnustríðsmynd sögð tekin upp á Íslandi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Fyrsta myndin í nýja þríleiknum verður frumsýnd árið 2015 og er leikstjóri hennar J. J. Abrams.
Fyrsta myndin í nýja þríleiknum verður frumsýnd árið 2015 og er leikstjóri hennar J. J. Abrams.
Sögusagnir ganga fjöllum hærra um að tökur á nýju Stjörnustríðsmyndunum muni fara fram hér á landi að hluta. „Verst geymda leyndarmál bransans,“ segir heimildamaður Vísis.

Tökurnar eru sagðar munu fara fram á fyrri hluta næsta árs og heimildamaðurinn fullyrðir að framleiðslufyrirtækið Truenorth sé með verkefnið á sinni könnu. Þessu vísar Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri Truenorth, alfarið á bug.

„Þetta er ekki rétt,“ segir Helga, sem segist þó vita til þess að fólk á vegum framleiðenda myndarinnar hefði verið hér á landi á vegum annars aðila. „Ég veit að samkeppnisaðili okkar var að búa eitthvað til í kringum þetta en ég veit ekki af hverju.“

Helga Margrét Reykdal hjá Truenorth segir að um kjaftasögu sé að ræða.mynd/heiða
Venjulega ríkir þagnarskylda um verkefni og staðfestir Helga að það sé í flestum tilfellum rétt. „En ég get samt sagt þér að þetta er ekki að fara í gang hér núna. Ég ætti að vita það.“

Annar heimildamaður Vísis segir að tökustaðir hafi verið skoðaðir um allt land í maí og fyrirhugaðar tökur muni standa yfir í um einn mánuð.

Líkt og Truenorth sver Saga Film verkefnið af sér. „ Við erum ekki með þetta. Annað er orðrómur,“ segir Árni Björn Helgason, framkvæmdastjóri erlendrar framleiðslu hjá Saga Film.

Fyrsta myndin í nýja þríleiknum verður frumsýnd árið 2015 og er leikstjóri hennar J. J. Abrams. Leikarinn Harrison Ford mun endurtaka hlutverk sitt sem Han Solo og einnig verða þau Mark Hamill og Carrie Fisher í litlum hlutverkum.


Tengdar fréttir

Solo verður sóló

Enn berast fregnir úr Star Wars-heimum. Auk nýju myndarinnar, sem stefnt er á að frumsýna árið 2015, stendur til að gera sérstakar myndir um þá Han Solo og Boba Fett.

Ford aftur í Stjörnustríð

Harrison Ford mun endurtaka hlutverk sitt sem Han Solo úr Stjörnustríðsmyndunum í nýjustu kvikmynd seríunnar. Vefsíðan Latino Review greinir frá.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.