Enski boltinn

Frábær mörk hjá Fulham í sigri í Lundúnaslag | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fulham náði sér í þrjú mikilvæg stig í neðri hlutanum með því að vinna 4-1 útisigur á nýliðum Crystal Palace í kvöld í lokaumferð áttundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Crystal Palace komst yfir í leiknum en Fulham svaraði með tveimur frábærum mörkum og gerði síðan út um leikinn með tveimur mörkum snemma í seinni hálfleiknum.  Pajtim Kasami, Steve Sidwell, Dimitar Berbatov og Philippe Senderos skoruðu mörk Fulham í kvöld.

Þetta var annar deildarsigur Fulham í röð en liðið fékk aðeins eitt stig í fimm leikjum þar á undan. Sigurinn kemur Fulham upp í 14. sæti deildarinnar.

Crystal Palace tapaði aftur á móti sínum fimmta deildarleik í röð og liðið situr áfram í næstneðsta sæti deildarinnar.  

Adrian Mariappa kom Palace í 1-0 strax á 7. mínútu með laglegum skalla en Pajtim Kasami jafnaði með stórbrotnu marki á 19. mínútu.

Kasami tók þá langa sendingu niður á kassann og hamraði boltann viðstöðulaust í fjærhornið - eitt af mörkum tímabilsins.

Steve Sidwell kom Fulham yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks með öðru glæsilegu marki og Dimitar Berbatov skoraði síðan með skalla á 50. mínútu eftir hornspyrnu Bryan Ruiz. Philippe Senderos skoraði síðan fjórða markið fimm mínútum síðar þegar hann klippti boltann eftir annað flott horn frá Bryan Ruiz.

Þetta var í fyrsta sinn síðan í nóvember 2004 að liði Fulham tókst að skora fjögur mörk í útileik í ensku úrvalsdeildinni eða síðan að Fulham vann 4-1 sigur á Newcastle fyrir rétt tæpum níu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×