Innlent

Gagnrýnir Hönnu Birnu - Segir hana eiga að vita betur

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, sagði í samtali við Rúv í dag að engin réttaróvissa væri í málinu vegna lagningu nýs vegar yfir Gálgahraun.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, sagði í samtali við Rúv í dag að engin réttaróvissa væri í málinu vegna lagningu nýs vegar yfir Gálgahraun. mynd/GVA
„Það er mjög fróðlegt að heyra ráðherra dómsmála segja, að það sé engin réttaróvissa í málum sem eru rekin fyrir dómstólum,“ segir Skúli Bjarnason, lögmaður Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands og Hraunavina.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, sagði í samtali við Rúv í dag að engin lagaleg óvissa væri í málinu vegna lagningu nýs vegar yfir Gálgahraun.

„Mér er ekki kunnugt um að ráðherra hafi dómsvald sem sé æðra en það sem dómstólar hafa samkvæmt stjórnarskrá,“ segir Skúli.

Skúli segir jafnframt að ráðherra ætti að vera það fullkunnugt að í samningnum sem Vegagerðin gerði við verktakana vegna vegarins, hafi verið  fyrirvari um að málaferlin gætu hugsanlega haft áhrif á framgang verkframkvæmdar á síðari stigum.

Hann segir að samningurinn um verkið hafi auk þess verið gerður tíu dögum eftir að dómsmál um lögmæti framkvæmdanna hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.

„Ég afhenti henni persónulega, ljósrit af þessum tveimur blaðsíðum þar sem þetta kemur fram persónulega, ég stafaði þetta ofan í hana, það er ekkert öðruvísi,“ segir Skúli. 

Hanna Birna sagði í samtalinu við Rúv að það væri mikill ábyrgðarhluti af hálfu ráðherra að fresta aðgerðum frekar, nú yrði að hefja framkvæmdir enda samningur í gildi gangvart verktökum, það væri ábyrgðarhluti gagnvart skattgreiðendum og opinberu fjármagni að fresta framkvæmd lengur. 

Hún sagði einnig að ekki væri hægt að fresta framkvæmdum lengur þar sem nú þegar hafi farið mikið fjármagn í verkið og það væri óvissa gagnvart þeim skaðabótum sem íslenskir skattgreiðendur gætu staðið frammi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×