Innlent

Forstjóri Landspítalans um fjárlögin: "Misskilningur sem verði leiðréttur“

Kristján Hjálmarsson skrifar
„Ég geri ráð fyrir að þetta sé einhverskonar misskilningur sem verði leiðréttur,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. „Við gerum ráð fyrir því að stjórnvöld muni standa við orð sín frá því fyrir og eftir kosningar og veita raunverulega viðspyrnu en ekki bara hlý orð.“

Samkvæmt nýkynntum fjárlögum fær Landspítalinn ekki aukið rekstrarfé frá fyrra ári og eru framlög til spítalans í raun óbreytt. Frumvarpið gerir ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna rekstrar spítalans nemi 38,5 milljörðum króna.

Tímabundið til þriggja ára 600 milljóna króna aukaframlag til spítalans vegna tækjakaupa er fellt niður. Og hagræðingarkrafa felur í sér hækkun á sértekjum sem stefnt er að því að náist með nýju legugjaldi.

Forstjóra Landspítalans segist vera brugðið vegna niðurskurðarins og þó hann hafi ekki búist við þeim 12-13 milljörðum króna sem sumir stjórnarþingmenn hafi rætt um fyrir og eftir kosningar hafi verið ljóst að andinn var sá að bæta í.

„Það lá fyrir að það ætti að styrkja þessa grunstoð íslensks heilbrigðiskerfi sem spítalinn er en það verða tóm orð ef við fáum ekki viðbótarfjármagn,“ segir Páll. Rekstrarhalli spítalans á þessu ári stefni nú þegar í  tæpan milljarð sem ekki verði bættur.  Sá halli er til kominn vegna  mjög aukinnar eftirspurnar,m.a.a vegna öldrunar þjóðarinnar og jafnlaunaátaksins sem ekki fékkst að fullu bætt.

„Þetta eru vissulega vonbrigði en við gerum ráð fyrir því að stjórnvöld standi við þau orð um að styrkja rekstur spítalans sem og tæki og aðstöðu á þeim vikum sem í hönd fara,“ segir Páll.

Ein helsta breytingin fyrir spítalann er niðurfelling á 600 milljóna króna framlagi vegna tækjakaupa.

„Það er alveg skýrt að LSH átti að fá um 900 milljónir króna á ári til tækjakaupa, þrjú ár í röð. Það átti að bæta við 600 milljónum með sérstökum styrk. Með þessu er búið að taka 2/3 af því fjármagni sem átti að fara í tækjakaup. Við byrjuðum að gera samninga um tækjakaup í ljósi fyrri áætlana. Ég geri ráð fyrir að stjórnvöld muni leiðrétta þetta með tækjastyrkinn og fjármagna okkar starfsemi eins og þarf,“ segir forstjórinn.

Páll tók við starfi forstjóra Landspítalans í dag. Þótt fjárlögin hafi komið honum á óvart segist hann ekki ætla að segja sig frá verkefninu.

„Það er erfitt að taka við svona verkefni í svona ástandi en einhver verður að halda því áfram. Nú er verkefnið að styrkja þjónustu spítalans, bæta líðan starfsfólks og auka starfsánægju. Það verður best gert með því að bæta aðbúnað og tækjakost,“ segir forstjórinn. „Það er langur tími að annarri umræðu um fjárlagafrumvarpið og ég held að það sé mikilvægt fyrir starfsfólk að það sinni sínu góða starfi, skýri sitt mál og berjist fyrir hagsmunum sjúklinga.“


Tengdar fréttir

Landspítalinn fær enga innspýtingu - fé til tækjakaupa skorið niður

Tímabundið 600 milljóna króna framlag til spítalans vegna tækjakaupa er fellt niður. Hagræðingarkrafa á spítalann felur í sér hækkun á sértekjum sem verður náð með nýju legugjaldi. Um er að ræða nýtt gjald þar sem sjúklingar greiða 1.200 krónur fyrir hvern sólarhring sem þeir dvelja á Landspítalanum. Með þessu nýja gjaldi er spítalanum reiknaðar um 200 milljónir í sértekjur.

Mikilvægt að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir gríðarlega mikilvægt að stefna að hallalausum fjárlögum til að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Bankaskatturinn verður notaður til að lækka skatta á fyrirtæki og heimili.

Stefna á hallalaus fjárlög

Gert er ráð fyrir því að ríkissjóður skili tæplega 500 milljón króna afgangi á næsta ári miðað við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem var kynnt í morgun. Þetta eru fyrstu hallalausu fjárlögin frá hruni.

Kaldar kveðjur í fjárlögum

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir fjárlögin sýna forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar.

Barna- og vaxtabætur lækka

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er áætlað að barnabætur á næsta ári verði 10.2 milljarðar króna en á í fjárlögum þessa árs voru þær tæpir 10.8 milljarðar króna.

Tóbak og áfengi hækka í verði

Tóbaksgjald og gjald á áfengi verður hækkað, samkvæmt lagabreytingu sem verður lögð fyrir Alþingi í næstu viku.

Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni sameinaðar

Kristján Már Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni verði sameinaðar. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014. Eftir sameiningu stofnana verður ein stofnun í hverju heilbrigðisumdæmi, eins og lög um heilbrigðisþjónustu gera ráð fyrir. Þetta á við um Norðurland, Suðurland og Vestfirði.

Milljónir í eflingu löggæslu

Gert er ráð fyrir 500 milljón króna viðvarandi framlagi til að efla löggæsluna í landinu. Á sama tíma er gert ráð fyrir að 200 milljón króna framlag sem veitt var tímabundið til löggæslumála í fjárlögum 2013 verði fellt niður.

Tekjuskattur lækkar

Skatthlutfallið í miðþrepi tekjuskatts verður lækkað um 0,8 prósentustig samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Skatthlutfallið lækkar úr 25,8% í 25%.

Skólagjöld hækka um 25 prósent

Framlag íslenska ríkisins til Háskóla Íslands á næsta ári lækkar um 321,8 milljónir króna og skólagjöld verða hækkuð úr 60 þúsund krónum í 75 þúsund krónur í öllum ríkisreknum háskólum.

Hætt við stækkun FSU

Heildarfjárveiting íslenska ríkisins til framhaldsskóla á Íslandi lækkar um rúmlega 1,5 milljarð króna í fjárlögum síðasta árs. Þar af eru almennar launa- og verðlagsbreytingar 645 milljónir króna.

100 milljónir til hönnunar sjúkrahótels

Nýr Landspítali er ekki fyrirferðarmikill í nýju frumvarpi til fjárlaga. Til hans eru lagðar 100 milljónir króna til fullnaðarhönnunar á sjúkrahóteli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×