Innlent

Starfsmenn segja fylgst með klósettferðum sínum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Í Esju Gæðafæði fer fram kjötvinnsla. Mynd úr safni.
Í Esju Gæðafæði fer fram kjötvinnsla. Mynd úr safni. Fréttablaðið/GVA

Starfsmenn kjötvinnslunnar Esju Gæðafæðis kvörtuðu til Persónuverndar í janúar yfir uppsetningu öryggismyndavéla á vinnustað sínum. Hafði þeim ekki verið tilkynnt um vöktunina né tilgang hennar. Segir í kvörtuninni að „þeir hafi lent í því að vera spurðir um tíðni og lengd salernisferða auk þess að vera þaulspurðir út í verklag við vinnu.“ Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar sem kveðinn var upp í ágúst.

Eigendur Esju Gæðafæðis hf. báru fyrir sig að áður, í gömlu húsnæði fyrirtækisins, hafi verið fullkomið og virkt myndavélatæki sem starfsmönnum fyrirtækisins hafi verið kunnugt um, inntir eftir skýringum vegna kvörtunarinnar. Myndavélarnar séu til staðar til þess að auka öryggi starfsfólks. Í svarbréfi Esju Gæðafæðis hf. til Persónuverndar í kjölfar kvörtunarinnar kemur einnig fram að ákveðinn starfsmaður kannist við að hafa spurt einn af starfsmönnum fyrirtækisins um tíðar klósettferðir sínar. Segir þó að starfsmennirnir hafi unnið hlið við hlið, ekki hafi verið byggt á neinum myndbandsupptökum og að spurningin hafi miðað að því að vita hvort eitthvað bjátaði að hjá starfsmanninum sem fór á klósettið.

Það var ekki fyrr en í júní á þessu ári sem að svarbréf barst frá starfsmönnum Esju Gæðafæðis vegna skýringa fyrirtækisins á eftirlitsmyndavélunum. Þar kemur fram að kerfið sem sett var upp á nýja staðnum sé mun fullkomnara, þar sé hægt að „súmma“ inn og að einn af yfirmönnunum sé með skjái með útsendingu úr öllum myndavélum við vinnuaðstöðu sína. Starfsmenn hafi einnig fengið athugasemdir þess efnis að þeir séu lengi í gang á morgnana en þeir mæta á undan yfirmönnum og því augljóst að horft er til myndbandsupptaka. Því sé verið að mæla vinnuafköst starfsmanna og það hljóti að vera hægt að gera það með öðrum hætti.  

Samkvæmt lögum má ekki mæla vinnuafköst með rafrænni vöktun nema hennar sé sérstök þörf. Persónuvernd taldi sér þó ekki stætt á að úrskurða um þetta efni þar sem um það stóð orð gegn orði.

Úrskurður Persónuverndar féll á þá vegu að heimilt væri að setja upp eftirlitsmyndavélar að því gefnu að starfsmenn yrðu fræddir um vöktunina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.