Innlent

Fyrirsláttur að Snowden verði að vera á landinu til að sækja um hæli

Jakob Bjarnar skrifar
Ef marka má orð lögmannsins Helgu Völu er það fyrirsláttur yfirvalda að Snowden þurfi að vera hér staddur til að sækja um hæli.
Ef marka má orð lögmannsins Helgu Völu er það fyrirsláttur yfirvalda að Snowden þurfi að vera hér staddur til að sækja um hæli.
Helga Vala Helgadóttir lögmaður segir það alrangt, sem fram hefur komið, að Edward Snowden þurfi að vera á landinu til að sækja um landvistarleyfi. „Þetta er alrangt því það er lögbundið að umsækjandi um leyfi til dvalar verði að sækja um áður en komið er. Sagt er líka að hann verði að vera hér áður en hann sækir um hæli. Það er ekki heldur rétt því fordæmi eru fyrir því að stjórnvöld hafi veitt fólki sem statt er utanlands hæli. Þá má sækja um hæli í sendiráðum Íslands erlendis sem og sækja um visa og sækja formlega um hæli við komuna. Vilji stjórnvalda er það eina sem þarf,“ segir Helga Vala á Facebooksíðu sinni.

Ögmundur Jónasson sagði á Alþingi í morgun að bandarísk stjórnvöld hefðu brotið gegn stjórnarskrá Íslands með njósnum sínum og veita ætti Snowden landvistarleyfi hér á landi. Stjórnvöld, þeirra á meðal Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, hafa hingað til afgreitt þetta mál sem svo að ekki sé hægt að veita mönnum hæli hér nema þeir séu hér staddir.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Allsherjarnefndar, var á þeim nótum á þinginu í morgun; hælisumsókn yrði að vera borin fram af einstaklingi sem væri staddur hér á landi auk þess sem upplýsingar skorti í málinu. „Mér vitanlega hefur ekki komið fram umsókn frá þessum tiltekna einstaklingi umsókn um ríkisborgararétt hér á Íslandi. Og þess vegna hefur nefndin ekki tekið þetta fyrir, og ég hef ekki áform um að gera það, nema annað tilefni gefist til. Hvernig ætti umfjöllun nefndarinnar að fara fram? Við höfum engin gögn, engar upplýsingar og þar af leiðandi engar forsendur, til þess að meta það hvort að þessi einstaklingur sem hér sé spurt um uppfylli þau skilyrði og ástæða sé til þess fyrir okkur að taka það mál til umfjöllunar," sagði Unnur Brá á Alþingi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.