Innlent

Umboðsmaður Alþingis vill upplýsingar um harkalegu handtökuna

Valur Grettisson skrifar
Róbert Spanó er settur Umboðsmaður Alþingis. Hann hefur óskað eftir upplýsingum um harkalegu handtökuna.
Róbert Spanó er settur Umboðsmaður Alþingis. Hann hefur óskað eftir upplýsingum um harkalegu handtökuna.
Settur umboðsmaður Alþingis hefur ritað lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fyrirspurnarbréf vegna myndskeiðs sem Vísir birti og sýndi harkalega handtöku um helgina.

Á vef umboðsmanns Alþingis segir að í ljósi myndbandsins sem birtist í fjölmiðlum, og víða á Facebook, af valdbeitingu lögreglu við handtöku, hafi umboðsmaður séð ástæðu til þess að óska eftir upplýsingum um málið.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, hefur ekki viljað tjá sig við fjölmiðla um málið umfram það sem fram kom í tilkynningu frá lögreglu í morgun. Þar kom meðal annars fram að málinu hefði verið vísað til ríkissaksóknara og að embætti ríkislögreglustjóra hefði verið gert viðvart vegna þessa.

Á myndbandinu má sjá lögregluna handtaka konu með harkalegum hætti. Lögreglumaður fleygir henni á bekk og þaðan í jörðina. Konan sjálf vildi ekki tjá sig við fjölmiðla þegar eftir því var leitað.

Þess má geta að skammt er liðið síðan umboðsmaður Alþingis óskaði eftir upplýsingum frá lögreglu eftir að tvær unglingsstúlkur voru handteknar eftir eftirför lögreglunnar í Árbæ.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×