Vísir birti í gærkvöldi myndband af harkalegri handtöku þar sem lögreglumaður sást fleygja konu utan í bekk og þaðan í jörðina. Svo virðist sem hún hafi hrækt á hann skömmu áður.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, vildi ekki tjá sig við fréttastofu umfram það sem stóð í tilkynningu lögreglu.
Hér má lesa tilkynninguna í heild sinni:
Athygli lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið vakin á myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum seint í gærkvöldi. Þar má sjá aðfarir eins lögreglumanns við handtöku á konu í miðborg Reykjavíkur nú um helgina.
Eftir skoðun á myndbandinu hefur verið ákveðið að vísa málinu til ríkissaksóknara til rannsóknar, en samkvæmt 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fer ríkissaksóknari með rannsókn mála vegna ætlaðra brota lögreglumana við framkvæmd starfa þeirra. Ríkisslögreglustjóri hefur einnig verið upplýstir um málið.