Innlent

"Þuríður Backman varð sér til minnkunar"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Geir H. Haarde segir ályktunina stórsigur fyrir sig.
Geir H. Haarde segir ályktunina stórsigur fyrir sig. ANTON
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ályktunar Evrópuráðsþingsins sem hann segir stórsigur fyrir sig og sinn málstað.

Þá segir hann Þuríði Backman hafa orðið sér til minnkunar með séráliti sínu á alþjóðlegum vettvangi sem undirstrikaði pólitískt ofstæki málsins.

Yfirlýsingin í heild sinni er svohljóðandi:

"Þessi ályktun þings Evrópuráðsins er stórsigur fyrir mig og minn málstað og ég fagna henni. Tilefni hennar og þeirrar vinnu sem að baki liggur eru landsdómsmálaferlin gegn mér og réttarhöldin yfir Júlíu Tymoshenko fyrrv. forsætisráðherra Úkraínu.

Niðurstaðan lýsir fordæmingu á pólitískum sakamálaréttarhöldum þar sem fólk er ákært fyrir pólitískar ákvarðanir eða skoðanir. Það er sannarlega dapurlegt að Íslandi skuli með landsdómsmálinu hafa verið komið í slíkan félagsskap af þáverandi ráðamönnum þjóðarinnar.

Jafnframt er raunalegt hvernig þáverandi formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, Þuríður Backman, sem var einn ákærenda í landsdómsmálinu, varð sér til minnkunar á þessum alþjóðlega vettvangi með séráliti sínu og undirstrikaði enn frekar það pólitíska ofstæki sem að baki lá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×