Innlent

Góð en skrýtin tilfinning

Boði Logason skrifar
"Þetta var bara rosalega góð, en jafnframt skrýtin tilfinning,“ segir Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sem flutti jómfrúrræðu sína á Alþingi í morgun.

Hún er fædd árið 1991 og verður tuttugu og tveggja ára í lok mánaðarins. Hún er yngsti þingmaðurinn sem hefur tekið sæti á Alþingi frá upphafi.

„Ég kem hérna upp til að vekja athygli á erfiðu máli, heimilisofbeldi,“ sagði hún í upphafi þingfundar.

Sagði hún meðal annars í ræðu sinni að 49% prósent kvenna á aldrinum 15 til 19 ára í öllum heiminum finnist heimilisofbeldi sjálfsagt mál.

„Að horfa á þetta stórt hlutfall ungra kvenna sem hafa þetta viðhorf vekur hjá manni stórar áhyggjur því þessar ungu konur munu væntanlega bera saman viðhorf út lífið og jafnvel miðla því til barna sinna. Með þessari ræðu vil ég biðla til þingsins að vinna ötulega og að mikilli staðfestu í málum sem snerta heimilisofbeldi og aðkomu barna í þeim málum.“

Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú ákvaðst að fjalla um þetta málefni?

„Ég komst yfir þessa skýrslu Unicef í liðinni viku og fannst mikilvægt að vekja athygli á þessu málefni,“ segir hún.

Hefurðu fengið einhver viðbrögð frá vinnufélögunum?

„Jájá, eins og verið hefur þegar þingmenn flytja jómfrúrræður sínar. Við óskum hvor öðru til hamingju, og það er mikið um kossaflens, fagnaðarlæti og klapp á bak,“ segir hún að lokum.

Ræðuna má hlusta á í spilaranum hér að ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.