Innlent

Árni Páll búinn að raka sig

Boði Logason skrifar
Árni Páll ásamt Kolbrúnu Björnsdóttur, þáttastjórnanda á Bylgjunni, í morgun. Kolbrún setti þessa mynd af þeim saman á Facebook-síðu sína.
Árni Páll ásamt Kolbrúnu Björnsdóttur, þáttastjórnanda á Bylgjunni, í morgun. Kolbrún setti þessa mynd af þeim saman á Facebook-síðu sína. Mynd/Úr einkasafni
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er búinn að raka sig en hann hefur skartað myndarlegu skeggi síðustu mánuði svo tekið hefur verið eftir. Í morgun mætti Árni Páll í útvarpsþáttinn Í bítið á Bylgjunni ásamt Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG.

Árni Páll segir að viðhaldið á skegginu hafi verið orðið mjög tímafrekt og leiðigjarnt. „Ég var svolítið tekinn í bólinu með þessari snjókomu hérna í morgun. Ég leit svo á að það væri mikilvægt að kasta af sér vetrarhamnum, eins og þjóðin þarf að gera, og taka á móti sumrinu,“ sagði Árni Páll.

Katrín Jakobsdóttir sagði að Árni Páll hafi haldið að það væri komið sumar og því hafi hann ákveðið að raka sig. Síðasti vetrardagur er í dag, og á morgun er Sumardagurinn fyrsti. Þrátt fyrir að aðeins nokkrir klukkutímar eru í sólina og sumarið, snjóaði af krafti í morgun.

Árni Páll byrjaði að safna skegginu eftir að hafa leikið í íslensku kvikmyndinni Hross, sem Benedikt Erlingsson leikstýrir. Á beinni línu á DV fyrir nokkru sagðist hann hafa liðið vítiskvalir við að safna skegginu. Klæjaði óstjórnlega - en var loks kominn yfir kláðann þegar tökum lauk.“

Í dag eru þrír dagar til kosninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×