Innlent

Píratar vilja ekki fara í ríkisstjórn

Stígur Helgason skrifar
Birgitta Jónsdóttir var síðust leiðtoga flokkanna til að ræða við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands.
Birgitta Jónsdóttir var síðust leiðtoga flokkanna til að ræða við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Mynd/ Daníel.
„Við viljum ekki taka þátt í ríkisstjórn," segir Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, sem rétt í þessu gekk út af fundi sínum með forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni. Þar með lauk fundahrinu forsetans, sem hefur tekið á móti formönnum stjórnmálaflokka á Bessastöðum frá því í morgun.

Birgitta hefur raunar ýjað að því áður að þátttaka í ríkisstjórn sé ekki efst á óskalista Pírata. „Við erum bæði allt of fá - þá yrðu engir þingmenn eftir - og við teljum að við getum haft miklu meiri áhrif inni á þingi ef við höldum áfram að vinna eins og Hreyfingin gerði og setti tóninn fyrir," sagði hún eftir fundinn.

Hún og samherjar hennar vilji vinna að bættri samvinnupólitík og reyna að færa Alþingi aukin völd. "Og ég vonast til þess að stjórnarmyndunarviðræður muni enda með öðruvísi stjórnarfari en við erum vön."

Aðspurð segist Birgitta hafa mælt með því að Framsóknarflokknum yrði falið stjórnarmyndunarumboðið. Ekki liggur fyrir hvenær forsetinn tilkynnir ákvörðun sína í því efni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×