Innlent

Ekki á leið í loforðakapphlaup

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Katrín er ósátt við fylgið en gefst ekki upp.
Katrín er ósátt við fylgið en gefst ekki upp. Mynd/Stefán
„Ég er mjög ósátt við fylgið,“ segir Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna (VG) og oddviti flokksins í Reykjavík - norður, en samkvæmt nýjustu könnun MMR um fylgi flokkanna mælist VG með 6,7 prósent fylgi. Það er talsverð lækkun frá síðustu könnun, þegar flokkurinn mældist með 8,1 prósent. Katrín var á leið á fund þegar fréttamaður Vísis náði tali af henni.

„Ég á bara bágt með að skilja þetta þegar við sjáum það í skoðanakönnunum að kjósendur setji til að mynda málefni heilbrigðisþjónustunnar og velferðarkerfisins á oddinn eins og við erum að gera. Kjósendur eru að segja það í öðrum könnunum að þeir vilji ekki fleiri álver og vilji sjá fjölbreyttari atvinnustefnu, nákvæmlega eins og okkar stefna er. Þá auðvitað finnst mér það áhyggjuefni að sá flokkur sem hefur verið lengst til vinstri inni á þingi og hefur verið eini flokkurinn sem hefur tekið upp græna fánann sé við það að detta út af þingi.“

Það var þó enginn uppgjafartónn í formanninum þrátt fyrir fylgistapið.

„Við auðvitað höldum áfram okkar kosningabaráttu og vonum að hún eigi eftir að skila sér. Við höldum okkar stefnu að því leyti að við ætlum ekki í neitt loforðakapphlaup. Það er bara kjósenda að vega og meta okkar stefnu. Við verðum að treysta á að fólk veiti þessum sjónarmiðum fylgi. En núna er ég að detta inn á fund,“ segir Katrín hress í bragði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×