Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn á að halda sig til hlés við stjórnarmyndun

Sjálfstæðisflokkurinn á að halda sig til hlés við næstu stjórnarmyndun ef hann fær það fylgi sem honum er spáð í skoðanakönnunum. Þetta sagði Elín Hirst, nýr frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, á fésbókarvegg sínum í gærkvöldi.

Allar nýjustu kannanir sem gerðar hafa verið á fylgi flokkanna sýna að Sjálfstæðisflokkurinn fengi undir 30% fylgi í kosningum. Nýjasti Þjóðarpúls Gallup, sem birtur var í fyrradag sýnir að fylgi flokksins er 22,4%. Það er minna fylgi en flokkurinn fékk í síðustu alþingiskosningum, rúmu hálfu ári eftir bankahrunið.

„Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að halda sig til hlés við næstu stjórnarmyndun ef hann fær það fylgi sem honum er spáð í skoðanakönnunum. Kjósendur hafa orðið 27. apríl nk. Það verður vinstri stjórn með Framsókn í brúnni, nokkuð sem verður erfitt fyrir Framsóknarflokkinn," sagði Elín á fésbókarvegg sínum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sendi flokksfélögum hvatningu í tölvupósti í gær. Þar sagði hann að með þessum Þjóðarpúlsi væri botninum náð. „Við þurfum að ákveða það, hvert með sjálfu sér, að héðan í frá liggi leiðin upp á við. Við höfum allt sem þarf. Við eigum glæsilega frambjóðendur, trausta stefnu og öflugt fólk um allt land sem vill vinna að kosningabaráttunni með okkur," segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×