Innlent

4 ára fangelsi fyrir hrottalega nauðgun við Reykjavíkurflugvöll

Mennirnir voru dæmdir í 4 ára fangelsi.
Mennirnir voru dæmdir í 4 ára fangelsi. mynd/Vilhelm
Tveir erlendir karlmenn voru dæmdir í fjögurra ára fangelsi fyrir hrottalega nauðgun við Reykjavíkurflugvöll í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þá var mönnunum gert að greiða fórnarlambinu 1200 þúsund krónur í miskabætur.

Mennirnir voru ákærðir fyrir að hafa að morgni sunnudagsins 16. október á síðasta ári, tekið konu upp í bifreið við Laugaveg í Reykjavík og ekið með hana að Reykjavíkurflugvelli. Og þar í aftursæti bifreiðarinnar þröngvað henni með ofbeldi til samræðis.

Mennirnir játuðu við yfirheyrslur hjá lögreglu að hafa tekið konuna upp í bifreiðina og ekið með hana að Reykjavíkurflugvelli þar sem kynferðisleg samskipti hafi átt sér stað. Framburður þeirra um hvað gerðist nákvæmlega var þó ekki samhljóða, en hvorugur kannaðist við að hafa þvingað konuna til kynferðismaka.

Í yfirheyrslum hjá lögreglu var framburður konunnar aftur á móti greinargóður og skýr. Hún sagði mennina hafa boðist til að aka sér í verslun sem hún ætlaði í og hafi hún þegið það. Hún hafi reynt að telja mönnunum trú um að hún væri smituð af HIV í þeim tilgangi að fá þá til að hætta ofbeldinu. Þá hafi hún einnig öskrað en þegar hún hafi gert það hafi ökumaðurinn tekið hana hálstaki og lamið hana í andlitið.

Mennirnir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því að þeir voru handteknir í október. Þeir þurfa að sitja í fangelsi í fjögur ár og greiða konunni 1,2 milljónir í miskabætur. Dómurinn var kveðinn upp í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu ætla mennirnir að áfrýja dómnum til Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×