Innlent

Innanríkisráðherra beitir sér gegn áformum Huang Nubos

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vill að ríkisstjórnin afturkalli leyfi sem veitt hafa verið um ívilnanir vegna fyrirhugaðra áforma kínverska kaupsýslumannsins Huang Nubos um leigu á Grímsstöðum á Fjöllum. Hann mun taka málið upp í ríkisstjórn á þriðjudag.

Samkvæmt lögum er aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) óheimilt að festa kaup á landi eða leigja til lengri tíma en þriggja ára. Árið 2010 voru sett lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga og Ögmundur segir að í þeim sé að finna lagaákvæði sem geri mögulegt að smjúga fram hjá þeirri almennu lagareglu. „Það er frá þessu ákvæði sem verið er að veita undanþágu, þannig að kínversk auðsamsteypa verður ígildi íslensks fyrirtækis.“

Ögmundur gerði fyrirvara við málið þegar það var afgreitt úr ríkisstjórn í júní. Hann segir mikilvægt að taka þessi mál til endurskoðunar, ekki síst í ljósi þeirrar þróunar sem virðist stefna í.

„Við þurfum að endurskoða þessar ívilnanir og aðkomu Kínverja að kaupum eða leigu á landi og svo er augljóst að við þurfum að taka upp viðræður við sveitarfélögin á Norðausturlandi um framtíðarþróun.“

Ögmundur segir eitt mikilvægasta verkefnið nú um stundir að bregðast skynsamlega við beiðnum erlendra auðmanna og fyrirtækja sem vilja fjárfesta hér á landi. Við inngönguna í EES hafi ekki verið gengið eins langt og hægt var til að halda eignarhaldi á landi innan landsteinanna. Þetta þurfi að taka til endurskoðunar.

Hann segir nauðsynlegt að sýna varfærni þegar kemur að fjöreggi Íslands; eignarhaldi á landi og auðlindum. Málið nú minni óþægilega mikið á það sem gerðist í aðdraganda hrunsins þegar nánast allt samfélagið gapti upp í fjármálamenn sem ætluðu að leggja heiminn að fótum sér.

„Ég sé að umboðsmaður Nubos hér á landi segir að eðlilegt sé að stórþjóðir á borð við Kínverja hafi, sem stórveldi, áhuga á að hafa hönd í bagga með ákvarðanatöku, til dæmis varðandi stórskipahöfn og olíuhreinsunarstöð á Norðausturlandi. Þá spyr ég á móti, en hvað með íslenska ríkið? Er ekki nauðsynlegt að við sem þjóð og sem ríki gætum hagsmuna okkar inn í framtíðina?“- kóp /sjá síðu 12



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×