Innlent

Vill rannsaka lán Seðlabankans til Kaupþings skömmu fyrir hrun

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, Helgi Hjörvar, vill láta kanna til hlítar hvers vegna Seðlabankinn tók ákvörðun um að lána Kaupþingi jafnvirði áttatíu og fjögurra milljarða króna hinn sjötta október 2008 en útlit er fyrir að hluti lánsins fáist aldrei endurgreiddur og milljarðar króna af skattfé séu því glataðir.

Hinn 6. október 2008 í miðju bankahruni og sama dag og neyðarlögin voru sett veitti Seðlabanki Íslands Kaupþingi 500 milljóna evra lán, jafnvirði um 84 milljarða króna, gegn allsherjarveði í danska bankanum FiH. Kaupþing banki féll tveimur dögum síðar, eða hinn 8. október 2008.

Fram kemur í 7. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að lánið hafi verið veitt á hádegi hinn 6. október, aðeins örfáum klukkustundum áður en forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi til neyðarlaga á Alþingi, en Seðlabankinn ráðfærði sig við forsætisráðherra áður en ákvörðun var tekin um veitingu lánsins.

Fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis funduðu í morgun í annað sinn um þessa lánveitingu en aldrei hafa fengist fullnægjandi skýringar á atburðarásinni þegar lánið var veitt, en hana er ekki að finna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Helgi Hjörvar sagði á Alþingi í dag að útlit væri fyrir að hluti lánsins fáist aldrei endurgreitt, því þegar danski bankinn FIH var seldur var hluti kaupverðsins seljendalán Seðlabankans til nýrra eigenda og var ákvæði um að það yrði leiðrétt með hliðsjón af tapi danska bankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×