Egypska lögreglan skaut þrjá til bana í mótmælum sem haldin voru víðsvegar um Egyptaland í gær og nótt í kjölfar afdrifaríks fótboltaleiks þar í landi. Fjöldi liggur særður eftir átök við lögreglu.
Mótmælin hófust í kjölfar þess að sjötíu og fjórir týndu lífinu í óeirðum sem brutust út eftir fótboltaleik í egypsku borginni Port Said á miðvikudag. Lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að bregðast ekki rétt við og hefur hún jafnframt verið sökuð um að hafa stofnað til slagsmála milli stuðningsmanna liðanna.
Þúsundir umkringdu skrifstofur innanríkisráðuneytisins í Kaíró í nótt en þar kom til átaka milli mótmælenda og lögreglumanna sem beittu táragasi gegn mannfjöldanum sem grýtti steinum á móti. Um fjögurhundruð þurftu á læknisaðstoð að halda í kjölfarið.
Í borginni Suez féllu tveir þegar lögreglan hóf skothríð á hóp þrjúþúsund mótmælenda sem hafði safnast saman fyrir höfuðstöðvar lögreglunnar eftir að þær fregnir bárust að einn þeirra sem féll í óeirðunum á íþróttaleikvanginum væri frá borginni.
Það voru liðin Al Ahly frá Kaíró og Al Masry frá borginni Suez sem öttu kappi á miðvikudaginn en að leik loknum stormuðu vopnaðir stuðningsmenn síðarnefnda liðsins inn á völlinn og veittust að liðsmönnum og stuðningsmönnum Al Ahly með fyrrgreindum afleiðingum.
Mótmælin eru sögð endurspegla óánægju landsmanna með störf lögreglu og herforingjaráðsins sem hefur farið með völd í landinu frá falli Hosni Mubaraks, forseta landsins, í febrúar á síðasta ári.
Skutu þrjá mótmælendur til bana í Egyptalandi
Hugrún Halldórsdóttir skrifar
