Erlent

Sér bara hryðjuverk

Basher al Assad Sýrlandsforseti í viðtali við rússneska sjónvarpsstöð.
Basher al Assad Sýrlandsforseti í viðtali við rússneska sjónvarpsstöð. nordicphotos/AFP
„Það er engin borgarastyrjöld hjá okkur,“ segir Bashar al Assad Sýrlandsforseti í viðtali við rússneska sjónvarpsstöð. Hann segir stjórnarherinn eingöngu eiga í stríði við hryðjuverkamenn sem njóti stuðnings frá útlöndum.

„Þetta er ný tegund af stríði,“ segir hann og heldur því fram að ýmist Sýrlendingar eða útlendingar stundi hryðjuverk í Sýrlandi fyrir hönd annarra landa. Til þess að ljúka stríðinu þurfi ekki annað en að önnur lönd hætti að senda uppreisnarmönnunum vopn: „Ég fullyrði að við getum klárað allt á nokkrum vikum.“

Leiðtogar Vesturlanda, Arababandalagsins og fleiri landa víða um heim hafa fordæmt hernað stjórnar Assads gegn uppreisnarmönnum, og jafnframt lýst yfir mismiklum stuðningi við uppreisnina.

Uppreisnarmenn skiptast hins vegar í ólíka hópa sem hafa átt í margvíslegum deilum innbyrðis. Leiðtogar helstu hópanna sitja hins vegar á fundi í Katar þar sem þeir reyna að koma sér saman um nánara samstarf.

Átökin í landinu hafa kostað 36 þúsund manns lífið. Nokkur hundruð þúsunda hafa flúið land, flestir til Tyrklands, Jórdaníu, Egyptalands, Íraks og Líbanon.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×