Erlent

Rannsaka fjölda óleystra morðmála á ný

Danska lögreglan er vongóð um að ná að upplýsa mörg óuppleyst mál með hjálp nýrrar tækni til greiningar lífsýna.
Danska lögreglan er vongóð um að ná að upplýsa mörg óuppleyst mál með hjálp nýrrar tækni til greiningar lífsýna. Nordicphotos/Getty
Dönsk lögregluyfirvöld eru vongóð um að ná að leysa mörg óleyst morðmál frá fyrri árum. Rannsókn hefur verið hafin á ný í tólf málum hið minnsta eftir að ný tækni varpaði ljósi á nothæf lífsýni í málsgögnum í geymslu. Af mörgum þeirra mátti greina erfðaefni sem gæti varpað nýju ljósi á mál, eða sannað sekt grunaðra.

Samkvæmt því sem fram kemur á vef Politiken gerir nýja tæknin, svokölluð PCR-tækni, rannsóknardeildum lögreglu það kleift að taka lítinn hluta af erfðaefni og magna hann upp til að fylla út í myndina af erfðamengi.

Lögreglan rannsakar nú af fullum krafti óleyst morðmál sem ná allt frá árinu 1967 til 2007. Í einu þeirra var búið að afmarka hóp grunaðra sem nú er hægt að bera saman við þau lífsýni sem fundust á morðvettvangi á sínum tíma.

Í kjölfarið hafa lögregluembætti víðar um land lýst yfir áætlunum sínum um að grandskoða fjöldann allan af óleystum málum með það að sjónarmiði að grafa upp ný sönnunargögn sem gætu varpað ljósi á hver gæti hafa verið þar að verki.

Politiken hefur þó eftir Jens Möller hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn að DNA-sýni séu ekki nóg ef enginn grunaður er til að bera sýnið saman við og hvetur borgara sem gætu haft upplýsingar um málin til að hafa samband. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×