Innlent

1,5 milljónir tonna af makríl við Ísland

Árni friðriksson Eitt fjögurra skipa sem tóku þátt í rannsóknaleiðangri þar sem útbreiðsla og magn makríls og annarra tegunda var kortlögð.
fréttablaðið/gva
Árni friðriksson Eitt fjögurra skipa sem tóku þátt í rannsóknaleiðangri þar sem útbreiðsla og magn makríls og annarra tegunda var kortlögð. fréttablaðið/gva vísir/gva
Um 5,1 milljón tonna af makríl mældist í sex vikna rannsóknarleiðangri Íslendinga, Færeyinga og Norðmanna í sumar og þar af 1,5 milljónir tonna innan íslenskrar efnahagslögsögu. Það er um 29% af heildarmagninu á rannsóknasvæðinu, að því er Hafrannsóknastofnun greinir frá.

Rannsóknirnar voru um borð í fjórum skipum frá Íslandi, Færeyjum og Noregi en markmið leiðangursins var að kortleggja útbreiðslu og magn makríls og annarra uppsjávarfiskistofna í Norðaustur-Atlantshafi meðan á ætisgöngum þeirra um norðurhöf stendur ásamt því að kanna ástand sjávar og átustofna á svæðinu.

Þó svo að niðurstöður þessar séu ekki enn þá lagðar til grundvallar mati á heildarstofnstærð makríls innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) staðfesta þær, líkt og leiðangrar fyrri ára, víðáttumikla útbreiðslu makrílsins. Þá sýna þær að elsti makríllinn ferðast lengst í sínum ætisgöngum í NA-Atlantshafi á sumrin.

Skörun á útbreiðslu makríls og síldar var einkum vestan til í Austurdjúpi og austur af Íslandi. Á austanverðu hafsvæðinu var lítið af síld. Bergmálsvísitala norsk-íslenskrar síldar mældist 7,2 milljónir tonna og niðurstöður leiðangursins síðustu fjögur ár sýna því svipaða neikvæða þróun stofnstærðar og mat Alþjóðahafrannsóknaráðsins er.

Yfirborðshiti sjávar í Norðaustur-Atlantshafi var að öllu jöfnu yfir langtímameðaltali. - shá



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×