Innlent

1.559 útköll vegna ofbeldis

mynd/ getty.
Lögregla er kölluð út þrisvar til fjórum sinnum hvern dag ársins vegna átaka á heimilum landsins. Í 200 til 300 tilvikum á hverju ári hefur verið beitt ofbeldi, misalvarlegu.

Þetta sýna gögn sem unnin voru af embætti Ríkislögreglustjóra fyrir Fréttablaðið fyrir rúmlega fimm ára tímabil frá 2007 til júní 2012. Fjöldi tilvika heimilisófriðar samkvæmt málaskrárkerfi lögreglunnar á þessu tímabili voru 7.071 alls. Ofbeldi var beitt í 1.559 tilvikum.

Tölurnar sýna að ár hvert eru útköllin tólf til fjórtán hundruð en hefur fækkað lítillega á milli ára allt tímabilið. Athygli vekur hins vegar að alvarlegum tilvikum fjölgar hlutfallslega; árið 2007 var ofbeldi beitt í 272 málum en þá voru 1.116 mál skráð sem heimilisófriður. Árið 2011 voru 310 ofbeldismál en 895 þar sem ekki hafði verið beitt ofbeldi.

Það ár, árið 2011, bárust um 850 tilkynningar um ofbeldi og ófrið til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ósættið mátti oft rekja til sambúðarslita og áfengi og fíkniefni komu við sögu í meirihluta tilvika. Í ársskýrslu segir: „Ef [fólk] var ekki að skaða hvert annað líkamlega fengu dauðir hlutir sömuleiðis iðulega að kenna á því. Eignaspjöll voru því fylgifiskar margra málanna, sem og grófar hótanir oft og tíðum. Börn voru stundum á heimilum við áðurnefndar aðstæður og er fátt dapurlegra en að upplifa slíkt.“

Í september í fyrra var hleypt af stokkunum tilraunaverkefni Barnaverndarstofu, barnaverndarnefnda og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til að sinna sálgæslu barna. Verkefnið var til sex mánaða en framlengt til ársloka. Tilefnið er að ekki þótti nóg gert til að styðja börn sem verða vitni að ofbeldi inni á heimili sínu. Reynsla af verkefninu sýnir að í viku hverri verða börn vitni að ofbeldi á heimili sínu, að sögn Rögnu B. Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa sem hefur umsjón með verkefninu.

„Þetta getur verið mjög átakanlegt, en misalvarlegt. Oft eru það börnin sjálf sem þurfa að hringja. Þetta getur verið andlegt ofbeldi, öskur og hótanir. Því miður eru þarna líka dæmi um að heimilið er rústir einar, börnin í áfalli og kannski móðir sem þarf að flytja á slysadeild,“ segir Ragna.

Í skýrslu um heimilisofbeldi, sem unnin var á vegum Ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og var birt í maí 2010, kemur fram að þolendur heimilisofbeldis voru í 70 prósentum tilvikum konur en í 30 prósentum tilvika karlar. Gerendur voru í 76 prósentum tilvika karlar en í 24 prósentum tilvika konur.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×