Innlent

Fleiri konur í hópi hákarla en í fyrra

Guðbjörg Astrid Skúladóttir
Guðbjörg Astrid Skúladóttir
Þrettán konur komast á lista yfir 50 stærstu greiðendur opinberra gjalda samkvæmt samantekt ríkisskattstjóra. Konum hefur fjölgað milli ára, en þær voru átta í fyrra og níu árið áður.

Konur eru þar með orðnar rúmur fjórðungur einstaklinganna á svokölluðum hákarlalista ríkisskattstjóra. Það er listi yfir þá 50 einstaklinga sem greiddu hæst opinber gjöld vegna síðasta árs.

Þorsteinn Hjaltested, fjárfestir og landeigandi á Vatnsenda, greiddi hæst opinber gjöld á síðasta ári, annað árið í röð. Hann greiddi um 185,4 milljónir króna vegna ársins í fyrra, en 161,8 milljónir árið áður.

Guðbjörg Astrid Skúladóttir, stofnandi Klassíska listdansskólans, er í öðru sæti á lista Ríkisskattstjóra, en hún greiddi alls tæplega 139,8 milljónir króna til ríkis og sveitarfélags síns fyrir síðasta ár. Þriðji á listanum er Frímann Elvar Guðjónsson viðskiptafræðingur, sem greiddi 129,4 milljónir króna.

Guðbjörg M. Matthíasdóttir, útgerðarkona úr Vestmannaeyjum, er fjórða á lista skattstjóra, en hún greiddi um 116,7 milljónir króna í opinber gjöld í fyrra.

Meðal annarra landsþekktra nafna á listanum má nefna Skúla Mogensen, einn aðaleigenda MP banka, Wow Air og fleiri fyrirtækja, sem greiddi 84,7 milljónir í opinber gjöld í fyrra.

Þar má einnig finna Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, sem greiddi 68,2 milljónir, og Ingunni Gyðu Wernersdóttur athafnakonu, sem greiddi 60,5 milljónir.

Á listanum eru einnig Ársæll Valfells fjárfestir og lektor við Háskóla Íslands, sem greiddi 67,1 milljón, og Össur Kristinsson, stofnandi Össurar, með 64,2 milljónir. Þar eru einnig Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sem greiddi 56,1 milljón króna í fyrra, og Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, sem greiddi 47,5 milljónir.

Þá má nefna Helga Vilhjálmsson, eiganda Góu, sem greiddi 44,8 milljónir, og Kára Stefánsson, stofnanda Íslenskrar erfðagreiningar, sem borgaði 40 milljónir króna.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×