Innlent

Tillaga geti fallið vel að byggð

Mynd af verðlaunatillögu ASK arkitekta, sem húsafriðunarnefnd segir að geti fallið vel að byggðinni sem fyrir er.
Mynd af verðlaunatillögu ASK arkitekta, sem húsafriðunarnefnd segir að geti fallið vel að byggðinni sem fyrir er. mynd/ask arkitektar
Húsafriðunarnefnd telur að vinningstillaga um skipulag í umhverfi Ingólfstorgs geti í stórum dráttum fallið vel að núverandi byggð á svæðinu. Þetta kemur fram í bókun nefndarinnar.

„Ekki er gert ráð fyrir neinni tilfærslu á varðveisluverðum timburhúsum á svæðinu heldur að byggt verði í bilin milli húsanna. Það er talið eðlilegt og jafnvel eftirsóknarvert að nýta auð svæði í miðborginni og styrkja þannig heildarmynd svæðisins,“ segir í bókuninni. Þá segir jafnframt að til að vel takist til sé mikilvægt að fullt tillit verði tekið til aldurs og gerðar gömlu timburhúsanna við útfærslu á millibyggingum við Vallarstræti. „Þannig geta millibyggingarnar styrkt sögulegt gildi gömlu húsanna og umhverfið orðið bæði áhugaverðara og fallegra.“

Þá segir nefndin að viðbygging við Landsímahúsið gæti afmarkað rými Austurvallar og Víkurgarðs með skýrari hætti en nú er auk þess að afmarka göturými Kirkjustrætis. Það sé þó háð útfærslu framhliðar hússins.

Nefndin telur ekki að salurinn sem hýst hefur Nasa geti talist til þjóðminja og því sé ekki tilefni til að friða hann. Því er hins vegar beint til borgarinnar að skoða að hverfisvernda hann.

Þá tekur húsafriðunarnefnd ekki afstöðu til fyrirhugaðrar nýbyggingar á Ingólfstorgi. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×