Innlent

Lög um reynslulausn verði gerð skýrari

Róbert R. Spanó
Róbert R. Spanó
Umboðsmaður Alþingis telur að skýra þurfi löggjöf um útreikning á afplánunartíma og reynslulausn fanga. Þetta kemur fram í áliti Róbert R. Spanó, setts umboðsmanns Alþingis, um útreikning refsitíma og hvenær fangar eigi rétt á reynslulausn.

Innanríkisráðuneytið úrskurðaði að ákvörðun fangelsismálastofnunar um útreikning afplánunartíma Tinds Jónssonar fyrir reynslulausn stæði. Umboðsmaður tók málið til skoðunar í kjölfar kvörtunar Tinds yfir úrskurði ráðuneytisins.

Tindur hlaut sex ára fangelsisdóm árið 2006 fyrir hrottalega líkamsárás í Garðabæ þegar hann réðist að öðrum pilti vopnaður sveðju.

Honum var veitt reynslulausn árið 2008 en rauf skilyrði reynslulausnar og var gert að sæta framhaldsafplánun í 1.080 daga.

Árið 2010 var Tindur dæmdur til átta ára fangelsisvistar fyrir aðild sína að framleiðslu amfetamíns í fullkominni fíkniefnaverksmiðju í Hafnarfirði ásamt Jónasi Inga Ragnarssyni.

Fangelsismálastofnun tilkynnti Tindi að afplánun hans væri reiknuð þannig að hann ætti kost á reynslulausn þegar helmingur eða tveir þriðju dómsins frá 2010 auk eftirstöðva dómsins frá 2006 væru liðnir.

Tindur taldi hins vegar að refsitíma sinn bæri að reikna miðað við sex ára dóminn árið 2006 auk áranna átta frá 2010. Þannig gæfist honum færi á reynslulausn mun fyrr.

Innanríkisráðuneytið hafði lagt til að Tindi bæri að ljúka afplánun dómsins frá 2006 og þá hæfist nýr refsitími.

Umboðsmaður Alþingis segist í áliti sínu ekki geta fallist á tillögu ráðuneytisins.

Ekki gafst þó tilefni fyrir umboðsmann að fara fram á að mál Tinds yrði endurskoðað þar sem ráðuneytið féllst á tillögu fangelsismálastofnunar.

- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×