Innlent

Hollenskur bergrisi í Almannagjánni

Menn þurfa ekki að hafa varann á þegar þeir eiga leið um Almannagjá því þessi birtist ekki nema með íhlutun Auke de Vries.
mynd/auke de vries
Menn þurfa ekki að hafa varann á þegar þeir eiga leið um Almannagjá því þessi birtist ekki nema með íhlutun Auke de Vries. mynd/auke de vries
Mér fannst það bara alveg borðleggjandi að láta risa stíga út úr berginu, ég er jú á Íslandi þar sem tröll og ýmsar vættir ráða ríkjum,? segir hollenski hreyfimyndaframleiðandinn Auke de Vries.

Hann gerði myndskeið þar sem bergrisi brýst út úr berginu í Almannagjá.

De Vries er einn þeirra listamanna sem haft hafa aðsetur í Gullkistunni á Laugarvatni. Gullkistan tekur á móti hundraðasta listamanninum til dvalar í sumar. Alda Sigurðardóttir, annar forsprakka Gullkistunnar, segir að oftast liggi margra ára undirbúningur að baki hjá listamönnum sem þangað komi frá öllum heimshornum. De Vries fékk skemmri fyrirvara en flestir, en hefur greinilega látið þetta óvænta ferðalag setja mark sitt á ferillinn.

?Ég var við nám í listaháskóla,? rifjar de Vries upp. ?Lokaverkefnið þar var stuttmyndin, ?The Super Rope Solution? sem síðan vann til fyrstu verðlauna á TENT kvikmyndahátíðinni og í verðlaun fékk ég þessa dvöl hjá Gullkistunni. Það var ekkert í kortunum að fara til Íslands en ég er hæstánægður að dvölina hérna.?

Listamenn Gullkistunnar hafa vinnuaðstöðu í gömlu fjósi við bæinn Eyvindartungu og segist de Vries kunna vel við sig þar meðal kollega sinna. En hann heldur ekki alltaf kyrru fyrir, til dæmis brá hann sér í hjólreiða-túr til Þingvalla fyrir skemmstu. Andinn virðist hafa verið yfir honum í þeirri ferð því nú þegar hefur hann búið til myndbút þar sem risi brýtur sig lausan úr berginu við Almannagjá og tekur svo á rás. Þennan myndbút segist hann ætla að nota í mynd sem hann muni vinna úr Íslandsdvölinni.

Meðal annarra listamanna sem glóa í Gullkistunni þessa dagana er bandaríska tónlistarkonan Du Yun. Hún er fædd í Kína en hefur nú haslað sér völl í New York þar sem hún vinnur jafnt með sinfóníur, óperur og nýtískulega raftónlist. jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×