Innlent

Ná ekki saman um leiguna

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segist undrast orð Valtýs Valtýssonar, sveitarstjóra Bláskógabyggðar. Hann sagði í Fréttablaðinu á miðvikudag að engin svör hefðu fengist frá ráðuneytinu varðandi málefni gamla héraðsskólans á Laugarvatni.

Sögufrægt hús héraðsskólans er í eigu hins opinbera og stendur tómt en bæði Gullkistan og sveitarfélagið vonast eftir því að fá afnot af því.

„Það er ekki hægt að segja að það hafi engin viðbrögð fengist frá okkur því við höfum átt í heilmiklum samskiptum, nú síðast í vor,“ segir Katrín. Hún segir enn fremur að þegar farið var í endurbætur á húsinu, sem reyndar var gert fyrir hennar ráðherratíð, hafi það verið gert í samráði við sveitarstjórnarmenn enda hafi það staðið til að sveitarstjórnin færi með hluta af starfsemi sinni þangað inn.

„Síðan hefur ekki gengið að ná leigusamningum,“ segir Katrín. „Viðræðurnar hafa snúist um viss afsláttarkjör en það er ekki hægt að segja að málið sé pikkfast heldur þarf fólk bara að ræða saman og komast að einhverri niðurstöðu.“ Sveitarfélagið falast einungis eftir hluta hússins og segist menntamálaráðherra opinn fyrir viðræðum um það hverjir nýti hinn hlutann. „Til dæmis Gullkistan ef það gæti farið saman,“ segir hún.

Kostnaður við endurbæturnar á húsinu nam um það bil 270 milljónum króna. - jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×