Innlent

Landsvirkjun og OR bítast um leyfi

Tvö stærstu orkufyrirtæki landsins vilja bæði fá leyfi til rannsókna vegna virkjana í Skjálfandafljóti.
Tvö stærstu orkufyrirtæki landsins vilja bæði fá leyfi til rannsókna vegna virkjana í Skjálfandafljóti. Fréttablaðið/GVA
Orkustofnun hefur til umfjöllunar tvær umsóknir sem skarast og varða rannsóknarleyfi vegna fyrirhugaðra virkjana í Skjálfandafljóti.

Fram kemur á vef Orkustofnunar að um sé að ræða umsókn frá Landsvirkjun vegna virkjana í ofanverðu fljótinu og hin er frá Hrafnabjargavirkjun hf., sem er í meirihlutaeigu Orkuveitu Reykjavíkur, vegna virkjunar við Hrafnabjörg.

Samkvæmt auðlindalögum skal rannsóknarleyfi aðeins veitt einum aðila á hverju svæði, en umsóknir Landsvirkjunar og Hrafnabjargavirkjunar eru nú til umsagnar hjá umhverfisráðuneyti og landeigendum. Að þeim umsögnum fengnum mun Orkustofnun taka umsóknirnar til formlegrar afgreiðslu lögum samkvæmt.

Áréttað er í umfjöllun Orkustofnunar um umsóknirnar tvær að rannsóknarleyfi vegna virkjana gefi ekki fyrirheit um forgang að virkjunarleyfi síðar á viðkomandi svæði. Þannig er ekki hægt að gefa sér að orkufyrirtækið sem hlýtur rannsóknarleyfið verði á endanum fyrirtækið sem fær heimild til að byggja virkjun á svæðinu. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×